Árni Johnsen, blaðamaður og fyrrverandi Alþingismaður, verður jarðsunginn frá Landakirkju í Vestmannaeyjum klukkan 13 í dag.
Árni lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum 7. júní, 79 ára að aldri. Hann fæddist í Vestmannaeyjum 1. mars 1944.
Árni lauk landsprófi frá Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum, hóf nám í Kennaraskólanum og lauk þaðan prófi 1966. Hann kenndi í Vestmannaeyjum í eitt ár og sömuleiðis eitt ár í Reykjavík og var einnig starfsmaður Surtseyjarfélagsins með aðsetur í Surtsey sumar og haust 1966 og 1967.
Hann var blaðamaður á Morgunblaðinu um langt árabil, 1967 til 1991. Einnig vann hann að dagskrárgerð fyrir Ríkisútvarpið og Sjónvarpið.
Árni var fyrst kjörinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Suðurlandi 1983. Hann var varaþingmaður á árunum 1988-1991 en náði aftur kjöri 1991 og sat til 2001. Hann fór aftur á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi 2007 en hætti þingmennsku 2013.
Eftirlifandi eiginkona Árna er Halldóra Filippusdóttir. Þau eignuðust soninn Breka en fyrir átti Árni tvær dætur með fyrri eiginkonu, Margréti Oddsdóttur, þær Helgu Brá og Þórunni Dögg.