Árni Johnsen jarðsunginn í dag

Árni Johnsen, blaðamaður og fv. alþingismaður.
Árni Johnsen, blaðamaður og fv. alþingismaður.

Árni Johnsen, blaðamaður og fyrrverandi Alþingismaður, verður jarðsunginn frá Landakirkju í Vestmannaeyjum klukkan 13 í dag.

Árni lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum 7. júní, 79 ára að aldri. Hann fæddist í Vestmannaeyjum 1. mars 1944.

Árni lauk landsprófi frá Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum, hóf nám í Kennaraskólanum og lauk þaðan prófi 1966. Hann kenndi í Vestmannaeyjum í eitt ár og sömuleiðis eitt ár í Reykjavík og var einnig starfsmaður Surtseyjarfélagsins með aðsetur í Surtsey sumar og haust 1966 og 1967.

Hann var blaðamaður á Morgunblaðinu um langt árabil, 1967 til 1991. Einnig vann hann að dagskrárgerð fyrir Ríkisútvarpið og Sjónvarpið.

Árni var fyrst kjörinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Suðurlandi 1983. Hann var varaþingmaður á árunum 1988-1991 en náði aftur kjöri 1991 og sat til 2001. Hann fór aftur á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi 2007 en hætti þingmennsku 2013.

Eftirlifandi eiginkona Árna er Halldóra Filippusdóttir. Þau eignuðust soninn Breka en fyrir átti Árni tvær dætur með fyrri eigin­konu, Margréti Oddsdóttur, þær Helgu Brá og Þórunni Dögg.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert