Auglýsa áfengi í skjóli erlendra miðla

Heimkaup sendir heim áfengi eins og sjá má í auglýsingu …
Heimkaup sendir heim áfengi eins og sjá má í auglýsingu Heimkaupa sem birtast íslenskum notendum Instagram.

Heimkaup hefur auglýst áfengi á samfélagsmiðlinum Instagram að undanförnu en auglýsingar með áfengi eru óheimilar samkvæmt íslenskum lögum. Forstjóri Heimkaupa segir alvanalegt að innflytjendur nýti erlenda samfélagsmiðla til að auglýsa áfengi þar sem íslensk löggjöf nær ekki utan um auglýsingarnar.

Áfengi lengi verið auglýst   

„Innflytjendur og framleiðendur á áfengum vörum hafa í langan tíma á ýmsum miðlum auglýst áfengi með ýmsum hætti til að mynda bjór sem léttöl. Þetta hefur verið auglýst á innlendum miðlum á prenti, sjónvarpi og í útvarpi og eins á samfélagsmiðlum sem ekki eru íslenskir miðlar,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Heimkaupa. 

Auglýsa rautt, hvítt og bjór

Heimkaup er afhendingaraðili á áfengi og hefur nýtt innlendar sem erlendar auglýsingar í að koma því á framfæri. Á innlendum markaði hefur fyrirtækið ekki auglýst áfengið beint heldur eingöngu heimsendinguna. Á erlendum miðlum má sjá í auglýsingum Heimkaupa áfengi á borð við rauðvín, hvítvín og bjór.  

„Á innlendum miðlum þá höfum við vakið athygli á afhendingunni undir rós, m.a. með því að segja að við afhendum þér beljur og rútur heim, þetta er gert til að vera í takt við íslenska löggjöf,“ segir Gréta.

Gréta María Grétarsdóttir er forstjóri Heimkaupa.
Gréta María Grétarsdóttir er forstjóri Heimkaupa.

Engin takmörk á erlendu markaðssvæði

Öðru gegnir þegar nýttir eru erlendir miðlar. „Við höfum aftur á móti á erlendum miðlum leyft okkur að vera beinskeyttari í því að við afhendum áfengi og höfum þá notað, bjór, rautt og hvítt til að mynda. Við höfum horft á að á erlendu miðlunum stöndum við jafnfætis öðrum auglýsendum þar og markaðssvæðið er  í raun allur heimurinn þar sem engin takmörk eru hvar auglýsingin birtist,“ segir Gréta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert