Jafnvel í roki stendur mannfjöldi fyrir utan Fjölskylduhjálp í Reykjanesbæ og bíður eftir matarúthlutunum. Í dag biðu tugir, ef ekki hundruð, manns, fyrir utan, meginþorri þeirra hælisleitendur, en í síðustu viku voru þeir hátt í 500 talsins. Blaðamaður og ljósmyndari mættu á svæðið og náðu tali af bæði sjálfboðaliðum og úthlutunarþegum.
Undir skýjuðum himninum við Keflavíkurhöfn stendur mikill fjöldi fólks á bílastæðinu við Fjölskylduhjálp að Baldursgötu. Það rignir örlítið og vindurinn blæs fjórtán metra á sekúndu. Mannfjöldinn, sem er að megni hælisleitendur, bíður í hvassviðrinu eftir því að fá matarúthlutun.
Fyrir marga er þetta ekki fyrsta skiptið sem þeir bíða þarna. Megni hópsins er flóttafólk sem enn hefur ekki fengið dvalarleyfi hér á landi og bíður eftir því að fá sérstakan matarúthlutunarmiða frá sjálfboðaliðum Fjölskylduhjálpar, þar sem fólkið hefur enn ekki fengið íslenska kennitölu.
„Staðan er alveg gríðarlega slæm,“ segir Anna Valdís Jónsdóttir, varaformaður Fjölskylduhjálpar og verkefnisstjóri útibúsins í Reykjanesbæ, í samtali við mbl.is. „Við erum búin að vera með vikulegar úthlutanir. Síðasta föstudag voru 500 manns fyrir utan, en við úthlutuðum í kringum 400 heimilum.“
Anna hefur séð um útibúið í 16 ár og segir hún fjöldann sem sækist eftir matarúthlutunum nú vera fordæmalausan.
„Þetta hefur aukist frá mánuði til mánaðar,“ segir hún og bætir við að fjölgunin hafi byrjað um það leyti sem kórónuveirufaraldrinum lauk. „En þetta fer ekkert batnandi.“
„Við látum þá sem eru með kennitölu vera á undan en við gefum öllum mat þegar matur er í húsi, óháð hvort þú sért með kennitölu eða ekki,“ segir hún.
Tveir vinir sem bíða fyrir utan lagerinn, og kjósa að halda nafnleynd, segja við mbl.is að þeir hafi verið búsettir á Íslandi í um 90 daga. Þeir eru sýrlenskir að uppruna en fæddir í Venesúela og bíða þeir báðir eftir dvalarleyfi. Þeir eiga fjölskyldur heima – börn, eiginkonur og foreldra, sem að þeirra sögn komast ekki til landsins vegna þess að þau eru aðeins með sýrlensk vegabréf en ekki ekki venesúelsk.
Þeir segjast hafa komið nokkrum sinnum að sækja matarúthlutun og hafa séð fleiri og fleiri bætast í hópinn. Þeir geta enn ekki unnið hér á landi, vegna þess að þeir hafa ekki fengið dvalarleyfi. Spurðir að því hvort matarúthlutanir Fjölskylduhjálpar séu þeim bráðnauðsynlegar svara þeir báðir játandi. „Þau hjálpa okkur og gefa okkur hluti. Aðvitað hjálpa þau fyrst og fremst fólki sem er með [íslenskar] kennitölur en við fáum það sem er umfram,“ segir einn þeirra.
Að þeirra sögn hefur verið nokkuð erfitt að búa á Íslandi en aðallega vegna þess að það tekur svo langan tíma að bíða eftir dvalarleyfi en einnig vegna þess að þeim finnst litið niður á sig. „Fólk horfir á okkur eins og við séum öðruvísi – ekki eins og það,“ segir einn mannanna.
Mbl.is ræddi einnig við hjón, mann og konu, sem biðu fyrir utan fjölskylduhjálp. „Þetta er annað skiptið sem við komum hingað. Við komum hingað seinast fyrir tveimur vikum. Þá var líka hellingur af fólki,“ segir maðurinn. „Þegar ég kom hingað síðast var samt margt fólk sem var þegar komið með kennitölu en flestir sem komu voru samt flóttafólk – ekki allir frá Venesúela samt. Það var margt arabískt fólk.“
Hann segir að þjónustan sé mikil hjálp en þau fái einnig fjárhagslega aðstoð frá stjórnvöldum. „Hvern þriðjudag gefa þau okkur smá pening til þess að kaupa í matinn en stundum, þegar hann dugir ekki, er gott að geta komið hingað og fengið meiri hjálp ef maður þarf,“ segir hann.
Innandyra er lager þar sem sjálfboðaliðar vinna af kappi við að safna saman matvælum í poka. Inni á lagernum er þröngt og sjálfboðaliðarnir þurfa að troða sér á milli fjölda pappakassa, Bónuskerra og mjólkurvagna til þess að koma öllum vörunum á sinn stað. Anna Valdís kveðst þakklát fyrir þann hóp sem leggur hönd á plóg við að úthluta matnum.
„Ég hef aldrei haft eins góða sjálfboðaliða eins og þetta fólk, á mínum 16 árum hér,“ segir Anna Valdís. „Þetta er hámenntað fólk. Þetta eru lögfræðingar og hjúkrunarkonur sem eru bara að leita að betra lífi fyrir börnin sín.“
Angel og Susan eru bæði sjálfboðaliðar. Angel er 45 ára gamall og býr í Reykjanesbæ með eiginkonu sinni og börnum sínum þremur. Hefur hann búið á Íslandi í sjö mánuði. Hann kveðst vera ánægður að geta hjálpað hjá Fjölskylduhjálp og finnur fyrir miklu þakklæti frá þeim sem hann úthlutar mat.
Susan er fimmtug. Hún er þriggja barna móðir, fædd í Venesúela en hefur búið í Sýrlandi nánast allt sitt líf en nú hefur búið á Íslandi seinustu níu mánuði. Hún segist vera stolt að því að vera sjálfboðaliði með Fjölskylduhjálp.
Susan á þrjá syni sem eru eru 12, 17 og 18 ára gamlir. Hún flúði með strákunum sínum frá Sýrlandi til Íslands svo að synir hennar þyrftu ekki að ganga í herinn og berjast í borgarastríðinu sem geisar nú yfir í heimalandinu. Hún segir að maður hennar hafi ekki komist með, þar sem hann sé aðeins með sýrlenskan ríkisborgararétt. Hann berst nú í stríðinu heima.
„Ég kom hingað svo að synir mínur ættu framtíð. Í Sýrlandi er ekkert fyrir okkur lengur,“ segir Susana við mbl.is. Bætir hún við að ef hún fengi dvalarleyfi fengi hún einnig rétt til fjölskyldusameiningar. Þannig gætu synir hennar fengið að hitta föður sinn að nýju.
En eftir að hafa dvalið hér í níu mánuði segir hún að henni hafi verið synjað um dvalarleyfi og það sé vegna þess að stjórnvöld séu „hætt að gefa fólki frá Venesúela kennitölur“. Hún vill meina að enginn hælisleitandi frá Venesúela hafi hlotið ríkisborgararétt síðustu misseri.
„Síðustu sex mánuði hefur enginn frá Venesúela fengið kennitölu,“ segir hún.
„Þetta er löngu sprungið og ég hefði viljað að einhverjir frá Reykjanesbæ myndu sjá sér fært um að kannski aðstoða við húsnæðið þegar við erum við úthlutun,“ segir Anna Valdís. „Við fáum enga styrki af Suðurnesjum nema frá því góða folki sem gefur okkur fatnað.“
Fjölskylduhjálp kaupi mikið af matnum sjálf en einnig séu birgjar í höfuðborginni sem gefi þeim matvæli. Hins vegar sé oft erfitt að geyma margar matvörur í langan tíma þar sem þau eru með takmarkað geymslupláss, einkum í kæliskápum. Segir Anna að ef bæjarfélagið sjái ekki fram á að getað aðstoðað samtökin gæti það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.
„Annaðhvort verðum við að loka á fólkið alfarið eða taka bara einhvern ákveðinn hóp fyrir. Við getum þetta ekki svona. Það er bara ekki hægt. En það er bara þannig hjá okkur að við gefum alltaf mat ef hann er til. Alveg sama hvort þú sért hælisleitandi eða íslenskur ríkisborgari,“ segir Anna.
„Það eru allir jafnir í okkar augum.“