Landsréttur mildaði í dag dóma héraðsdóms yfir sakborningum í Saldreifaramálinu svokallaða, en málið er stærsta fíkniefnamál sem upp hefur komið hér á landi. Rúv greindi fyrst frá.
Halldór Margeir Ólafsson og Ólafur Ágúst Hraundal hlutu þyngstu refsingar sakborninga, en í dag var dómur þeirra mildaður úr 12 árum í 10 ára fangelsi. Mennirnir tveir voru ákærðir fyrir innflutning á 53 lítrum af amfetamínvökva í saltdreifara sem fluttur var hingað til lands og voru þeir sakaðir um að framleiða allt að 117,5 kíló af fíkniefnum úr vökvanum. Verðmæti fíkniefnanna var metið á annan milljarð króna.
Þá voru dómar þeirra Guðlaugs Agnars Guðmundssonar og Guðjóns Sigurðssonar einnig mildaðir, en þeir voru hvor um sig dæmdir til tíu ára fangelsisvistar í héraði en fengu átta ár í Landsrétti í dag.
Loks hlaut Geir Elí Bjarnason 18 mánaða skilorðsbundna refsingu í Landsrétti í dag, en hann hafði fyrr hlotið tveggja ára dóm Í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stórfellt fíkniefnilagabrot sem varðaði kannabisræktun.
Héraðssaksóknari lagði fram ákæru á hendur mönnunum fimm í ágúst síðastliðnum. Mennirnir voru ákærðir fyrir skipulagða brotastarfsemi og stórfelld fíkniefnalagabrot.
Þrír mannanna voru ákærðir fyrir innflutning á saltdreifara sem innihélt gífurlegt magn amfetamín vökva. Auk þess voru fjórir mannanna ákærðir fyrir að hafa staðið í kannabisræktun í útihúsi á hellu. Einn mannanna var ákærður fyrir sölu og dreifingu á amfetamíni, kókaíni og MDMA, en sá var ákærður fyrir þrjú fíkniefnalagabrot til viðbótar.
Loks var annar fimmenninganna ákærður fyrir vörslu á nokkrum grömmum af kókaíni.