„Mér finnst það bara með algjörum ólíkindum og ákveðin gaslýsing að segja þjóðinni það, þegar banki fær sekt upp á 1,2 milljarða, hæstu sekt fjármálaeftirlitsins frá upphafi, að í því felist traustsyfirlýsing,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is.
Þorbjörg vísar í orð bankastjóra Íslandsbanka, Birnu Einarsdóttur, en hún hefur sagt að bankinn dragi lærdóm af atvikinu.
„Að tala um að það sé traust til manna um að gera betur, í stað þess að horfast í augu við það að þarna eru báðir aðilar sammála um það að mjög alvarleg brot áttu sér stað. Mér finnst það ekki endurspegla neina auðmýkt um það sem fór úrskeiðis,“ segir Þorbjörg.
Hún segir að augljóst sé að málið sé af alvarlegum toga miðað við hversu há sekt bankinn hefur fallist á. Aðspurð hvort hún telji að Alþingi muni skipa rannsóknarnefnd í málinu, í ljósi þess hve alvarleg brotin virðist vera, segir Þorbjörg að hún telji tilefni til þess.
Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem Þorbjörg er varamaður í, taldi að málið væri fullupplýst í áliti sínu um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og töldu að ekkert gæfi til kynna að lög eða reglur hefðu verið brotnar við framkvæmd sölunnar af hálfu ráðherra eða Bankasýslunnar.
Þorbjörg segir fyrsta og eðlilegasta skrefið væri að FME birti sýna ákvörðun svo þjóðin geti séð hvað hafi verið rannsakað, hvaða lög vöru brotin og niðurstöður eftirlitsins, ekki bara tilkynningu frá aðilanum sem gerðist brotlegur í málinu.
Ekki sé hægt að taka ákvörðun um stofna rannsóknarnefnd enn sem komið er, þar sem vanti allar grunnupplýsingar um málið, hægt verði að leggja mat á hvað næstu skref verði.
Aðspurð hvaða áhrif niðurstöður FME kunni að hafa á hæfismat umboðsmanns Alþingis á fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarna Benediktssyni, segir hún mál hans enn til skoðunar en að í því samhengi bendi hún á að það sem framkalli háa sekt á hendur Íslandsbanka snúist líka um hagsmunaárekstra.
“Svo auðvitað flækir það stöðu ráðherrans pólitískt að hann er sjálfur ennþá til skoðunar,“ segir Þorbjörg og bætir við að það segi ákveðna sögu að umboðsmaður hafi ítrekað talið svör ráðherra ófullnægjandi og hafi óskað eftir ítarlegri skýringum.
Umboðsmaður hefur í tvígang óskað eftir nánari skýringum á afstöðu fjármálaráðherra, til hæfis hans vegna sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. í mars í fyrra, meðal annars hvort hæfi Bjarna hafi verið fullnægt að því snertir söluna á hlutum ríkisins í bankanum til Hafsilfurs ehf., sem er félag í eigu Benedikts Sveinssonar, föður Bjarna.