Fékk glóðar­auga eftir á­rekstur við raf­hlaupa­hjól

Jökull Freyr, sex ára og Ingrid Örk, móðir hans.
Jökull Freyr, sex ára og Ingrid Örk, móðir hans. Ljósmynd/Facebook

Betur fór en á horfðist þegar ellefu ára drengur á Hopp rafhlaupahjóli ók niður sex ára dreng á Selfossi á þjóðhátíðardaginn. Móðir drengsins segir nauðsynlegt að skoða aldurstakmörk á rafhlaupahjólanotkuninni og gagnrýnir að þau lúti sömu lögmálum og reiðhjól.

„Við tilkynntum þetta ekki til lögreglunnar af því að þetta var bara í rauninni skráma sem hann fékk en þetta var meira andlegt áfall myndi ég segja. Þetta er það sem maður er búinn að vera að óttast eftir að rafskúturnar komu hérna út um allan bæ,“ segir Ingrid Örk Kjartansdóttir, móðir hins sex ára Jökuls Freys sem endaði með glóðarauga eftir árekstur við rafhlaupahjól.

„[...] Okkur fannst skrítið að svona lítið barn væri á Hopp hlaupahjóli, það eru náttúrulega margir krakkar á sínum eigin rafskútum en Hopp hlaupahjólin eru svo þung, þetta er náttúrulega mjög hættulegt þannig. Svo fannst okkur líka svolítið skrítið að þetta er sem sagt í lok hátíðarhaldanna á Selfossi og alveg við hátíðarsvæðið í rauninni og mér finnst svolítið skrítið að það hafi ekki verið lægri hámarkshraði á hjólunum þar sem var krökkt af fólki allan daginn,“ segir Ingrid í samtali við mbl.is.

Ekki eitthvað sem börn fá nægilega kennslu í 

Hún segir að farið hafi verið að týnast úr mannfjöldanum. Þegar slysið verður og drengurinn kemur akandi á rafhlaupahjólinu er fjölskyldan að ganga út af túni á hátíðarsvæðinu.

„Það sem strákurinn ákveður að gera er að reyna að fara á milli tveggja barna en eins og maður lærir í ökuskólanum að þá getur maður ekki alltaf stólað á það að barn víki fyrir þér. Það er kannski aðallega það sem ég hugsa, þetta er það sem maður lærir í ökuskólanum þegar maður er sautján ára eða eftir sautján ára en þetta er ekki kennsla sem nein börn fá í umferðarskólanum,“ segir Ingrid.

Hér má sjá glóðaraugað sem Jökull hlaut við áreksturinn.
Hér má sjá glóðaraugað sem Jökull hlaut við áreksturinn. Ljósmynd/Facebook

Hún segir rafhlaupahjólið hafa komið að þeim aftan frá, hún hafi sagt drengnum sínum að passa sig og hann hafi hlaupið til bróður síns og í raun fyrir rafhlaupahjólið við þá viðvörun. Hann hafi aldrei séð það eða heyrt i því. Þá bendir hún á að fjölskyldan og barnið á rafhlaupahjólinu hafi öll verið í órétti þar sem þau hafi verið að labba á götu hjá hátíðarsvæði.

Mikið mildi sé að ekki hafi farið verr en henni hafi verið mjög létt þegar Jökull, strákurinn hennar stóð strax upp og fór að gráta.

Gangstéttir ekki lengur öruggar vegna rafhlaupahjóla

Hún veltir því upp að gangstéttir séu í raun ekki lengur öruggar vegna rafhlaupahjóla.

„Líka þetta að ef við bara ímyndum okkur að við séum hérna í Reykjavík, þar sem ég bý. Við erum að kenna krökkunum okkar að það sé öruggt að vera á gangstéttunum en það er í rauninni ekki öruggt. Þau eiga að passa sig á bílunum, vera ekki of nálægt götunni en það er í rauninni ekkert öruggt lengur fyrir þau að vera á gangstéttunum af því það eru börn á þessum stóru þungu hjólum að keyra á kannski 25,“ segir Ingrid.

„Ég er eiginlega bara að kalla eftir því að rafhlaupahjól falli ekki undir sömu umferðarlög og reiðhjól, af því að þau gera það samkvæmt því sem ég les á samgöngustofu. Hopp mælir með því að þú sért átján ára en það eru engin viðurlög sem fylgja ef það kemst upp að það sé einhver undir aldri á hjólinu. Þannig að kannski þyrfti að vera skýrari og strangari rammi, því það sem er bannað er bannað,“ segir Ingrid og bendir á að erfitt sé þegar einungis sé „mælst til“ einhvers.

„Mér finnst eiginlega bara komið nóg af þessum slysum og þarna hefði getað farið miklu verr. Strákurinn minn er rosalega heppinn.“

Drengurinn miður sín eftir slysið 

Ingrid segir drenginn á rafhlaupahjólinu hafa verið miður sín eftir atvikið en þegar hann hafi séð kúluna á höfði Jökuls hafi hann haldið fyrir andlit sitt og spurt, „hvað er ég búinn að gera?“ Fjölskylda hans hafi haft samband og verið miður sín eftir slysið.

„Og það er kannski líka þetta, ef barnið hefði verið yngra, segjum bara þriggja ára, það hefði verið hræðilegt.“

Hún segir Jökul að mestu leyti vera búinn að jafna sig, hún finni þó fyrir því að hann sé hvekktari en áður. Það verði þó líklega til þess að hann passi sig betur.

Að lokum kallar hún eftir því að frekari aldurstakmörk verði sett á notkun rafhlaupahjóla, sekt mætti fylgja ef reglur væru brotnar og hvetur Hopp til þess að vera með strangara eftirlit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert