Listakonurnar Bryndís Björnsdóttir og Steinunn Gunnlaugsdóttir voru í dag dæmdar í 30 daga skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hylmingu á þýfi.
Þeim áskotnaðist afsteypa af styttu Ásmundar Sveinssonar af Guðríði Þorbjarnardóttur og syni hennar Snorra Þorfinnssyni sem numin var brott frá Laugarbrekku á Snæfellsnesi. Styttunni komu þær fyrir í geimflaug þeirri sem þær settu upp á sýningu Nýlistasafnsins.
Ekki eru þær dæmdar fyrir hlutdeild að stuldi styttunnar frá Laugarbrekku. Hins vegar eru þær dæmdar fyrir hylmingu. Í ljósi menntunar þeirra og fyrri starfa ætti þeim að hafa verið ljóst að styttan var illa fengin. Mætti til dæmis augljóslega sjá að hún hafi verið skorin af stalli sínum.
Dómarinn gerir þeim jákvæðar hvatir til refsilækkunar en sköpunargleði þeirra hafi valdið öðrum tjóni og óþægindum. Voru þær því dæmdar til 30 daga fangelsisvistar, skilorðsbundið.