Landsréttur mildaði í dag dóm Héraðsdóms Reykjaness frá 16. janúar í máli Önnu Lefik-Gawryszczak sem þar var dæmd til fimm og hálfs árs fangelsisvistar fyrir innflutning á 3.800 millilítrum af amfetamínbasa í fjórum vínflöskum 14. ágúst í fyrra, en styrkleiki efnanna var á bilinu 40 til 43 prósent.
Landsréttur taldi framburð Önnu með miklum ólíkindablæ, en hann er rakinn allítarlega í fyrri frétt mbl.is um dóm héraðsdóm. Þá hafi framburðurinn ekki að öllu leyti samræmst framburði vitnisins B, sem ferðaðist með henni til landsins, auk þess sem hann hafi ekki fengið stoð í rannsóknargögnum. Þótti framburðurinn í heild ótrúverðugur.
Segir í dómi Landsréttar að Lefik-Gawryszczak hafi tekið við vínflöskunum án þess að ganga úr skugga um innihald þeirra og því látið sér í léttu rúmi liggja um hvaða efni væri að ræða. Ljóst þyki að ásetningur hennar hafi staðið til þess að flytja efnin til landsins.
Með hliðsjón af magni og styrkleika efnanna hafi enn fremur þótt hafið yfir vafa að þau hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hérlendis. Ekki var fallist á þá refsilækkunarástæðu ákærðu að meðferð málsins fyrir héraðsdómi hefði dregist.
Með hliðsjón af dómaframkvæmd og magni efnanna ákvað Landsréttur þó að fjögur ár teldust hæfileg refsing í stað fimm og hálfs og urðu málalok því þau.