Auðlind er heiti á tilraunaverkefni endurvinnslufyrirtækisins Pure North. Fyrirtækið hefur aðsetur í nýsköpunarhúsinu Grósku og tók að sér að endurhugsa úrgangsstjórnun hússins með það að markmiði að minnka blandaðan úrgang og skapa verðmæti til endurvinnslu. Sigurður Halldórsson er framkvæmdastjóri og stofnandi Pure North.
Í Grósku starfa um 1.200 manns, svipað margir og í meðalsveitarfélagi. Gömlu ruslageymslunni í húsinu hefur verið breytt í fullkomna móttökustöð fyrir allan úrgang. „Ruslageymslan var stútfull af körum og vondri lykt. Við hreinsuðum hana út, þrifum og skírðum upp á nýtt. Áður voru hér um 20 kör fyrir blandaðan úrgang en nú eru aðeins tvö eftir.“
Sigurður gengur með blaðamanni um rýmið og skýrir allt ferlið. Fyrst er komið að tölvuskjá, þar sem hver notandi auðkennir sig. Valið er hvers konar úrgang eigi að losa og birtast þá leiðbeiningar um losun á skjánum, hvað fer hvert. Við hlið skjásins er svo vigt til að meta umfang losunarinnar.
Dæmi um nýstárlega lausn er sérstök vél fyrir frauðplast. Hún getur minnkað rúmmál umbúða úr frauðplasti fimmtíufalt og skilar úr kubbum sem eru tilbúið, verðmætt hráefni í endurvinnslu. Önnur vél tekur við bylgjupappa, sem fólk getur matað sjálft. Vélin þjappar pappanum saman og skilar í böggum. Einn slíkur baggi er ígildi 15 pappírskara áður. Aftur er komið hágæða hráefni til endurvinnslu, tilbúið til flutnings.
Á móttökustöðinni eru líka jarðgerðarvélar sem taka við öllum lífrænum úrgangi hússins, svo sem matarleifum og öðru. Vélin getur breytt úrganginum í moltu á einum sólarhring. Sigurður segir þetta hluta af frekara samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands og eins er verið að skoða hvort ekki sé hægt að setja moltuna beint í neytendapakkningar til endursölu.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag