Hlutdeildarlán nú á eignir upp að 80 milljónum

Við höfum verið í samtali við byggingaraðilana á tímabilinu og …
Við höfum verið í samtali við byggingaraðilana á tímabilinu og það eru mun fleiri íbúðir sem uppfylla þessi skilyrði. Við sjáum fram á að sú þróun haldi áfram út árið,“ segir Elmar Erlendsson, framkvæmdastjóri lánasviðs HMS. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ein stærsta breytingin í reglugerð innviðaráðherra um hlutdeildarlán er að hámarksverð íbúða hafa verið endurskoðuð. Hámarksverð stærstu íbúðanna á höfuðborgarsvæðinu fer úr 66 milljónum í 80,5 milljónir króna. Þá hækka einnig tekjumörk umsækjenda umtalsvert.

Breytingunum er ætlað að hjálpa fleiri fyrstu kaupendum inn á fasteignamarkaðinn sem og þeim sem hafa verið utan hans að lágmarki fimm síðustu ár. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) sem sér um úthlutun lánanna hélt kynningarfund í kjölfar breytinganna í dag.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði í samtali við mbl.is í vikunni að tím­inn fyr­ir hið op­in­bera að stíga inn og stuðla að frek­ari upp­bygg­ingu sé akkúrat núna. Sagði hann að á sama tíma þurf­i að gæta þess að reyna að ná niður verðbólgu og þar með vaxta­stig­inu þannig að hinn al­menni bygg­inga­markaður taki við sér. Sagði hann lyk­il­atriðið að auka fram­boð íbúða og lyk­il­mark­miðið að ná jafn­vægi á hús­næðismarkaðnum.

Hámarksverð hækka um allt að fjórðung og tekjumörk um 10%

Hlutdeildarlán eru fyrir fyrstu kaupendur og þá sem ekki hafa átt eign síðustu fimm árin. Kaupendur þurfa að eiga að lágmarki 5% eigið fé umfram skuldir til að eiga rétt á hlutdeildarláni að hámarki 20% af markaðsverði eignar. Ef kaupandi á eigið fé umfram lágmarkið dregst hlutfall umfram lágmark frá sjálfu hlutdeildarláninu í sama hlutfalli. Ef kaupandi á til dæmis 7% eigið fé umfram skuldir á hann ekki rétt á 20% hlutdeildarláni heldur aðeins 18%.

Ein stærsta breytingin í reglugerð innviðaráðherra um hlutdeildarlán er að hámarksverð hafa verið endurskoðuð. Á höfuðborgarsvæðinu hækkar hámarksverð íbúða sem gjaldgengar eru fyrir hlutdeildarlán um 21,4-23,3%. Þannig fer hámarksverð á íbúð sem hefur að lágmarki þrjú svefnherbergi úr 61 milljón í 74 milljónir króna sé íbúðin að lágmarki 90 fermetrar að grunnfleti. Hámarksverð stærstu íbúðanna á höfuðborgarsvæðinu fer úr 66 milljónum í 80,5 milljónir króna.

Á vaxtarsvæðum utan höfuðborgarsvæðisins, það er á Akranesi, Akureyri, Grindavík, Hveragerði, Reykjanesbæ, Árborg og Vogum á Vatnsleysuströnd auk Hörgársveitar, Suðurnesjabæjar og Ölfuss, sem öll koma ný inn í þennan flokk, hækkar hámarksverð íbúða um sem gjaldgengar eru fyrir hlutdeildarlán um 24,4-25%. Þannig fer hámarksverð á íbúð sem hefur að lágmarki þrjú svefnherbergi úr 50 milljónum í 62,5 milljónir króna.

Á landsbyggðinni utan vaxtarsvæða hækkar hámarksverð íbúða um sem gjaldgengar eru fyrir hlutdeildarlán um 22,4-23,7%. Þannig fer hámarksverð á íbúð sem hefur að lágmarki þrjú svefnherbergi úr 46,5 milljónum í 57,5 milljónir króna.

Þá hækka tekjumörk umsækjenda um hlutdeildarlán um rúm 10%. Tekjumörk einstaklinga á ársgrundvelli fara úr 7.908.000 krónum í 8.748.000 krónur. Hjón mega hafa 12.219.000 krónur í stað 11.046.000 króna áður og viðbót við tekjumark vegna barna eða ungmenna að 20 ára aldri sem er á framfæri umsækjanda eða býr á heimilinu fer úr 1.632.000 krónum í 1.805.000 krónur.

Tíðni úthlutana tvöfaldast

Eftir breytingu á reglugerðinni mun HMS úthluta hlutdeildarlánum 12 sinnum á ári en ekki 6 sinnum eins og áður og ráðherra endurskoðar hámarksverð ár hvert en ekki á tveggja ára fresti eins og áður.

Í máli Einars Georgssonar, verkefnastjóra hlutdeildarlána hjá HMS, á fundinum kom fram að með þessum breytingum verði meiri fyrirsjáanleiki og tíminn fyrir bæði kaupendur og seljendur styttist sem og að stofnunin geti svarað fyrr en ella. Sagði hann einnig að markmið HMS sé að vinna enn hraðar og að yfirlýst stefna stofnunarinnar sé að taka umsóknir til afgreiðslu ekki seinna en einni viku eftir að þær berast stofnuninni.

„Bætist í á hverjum einasta degi“

Elmar Erlendsson, framkvæmdastjóri lánasviðs HMS, segir í samtali við mbl.is að breytingin nú sé önnur breytingin á reglugerð um hlutdeildarlán. Segir hann að í fyrri breytingu reglugerðarinnar hafi verið horft til þess að róa markaðinn en að breytingin nú sé gerð með annarri nálgun. Að hámarksverð hafi verið hækkuð umfram það sem gert hafi verið áður og nálægt því sem er að gerast á markaði í dag.

„Um leið og við kynntum ný hámarksverð fórum við að fá inn umsóknir. Við höfum verið í samtali við byggingaraðilana á tímabilinu og það eru mun fleiri íbúðir sem uppfylla þessi skilyrði. Við sjáum fram á að sú þróun haldi áfram út árið.

Bara á þessum þremur dögum sem liðnir eru síðan hámarksverð hækkuðu höfum við fengið gífurlega marga inn sem telja sig vera með íbúðir sem falla þarna undir og úr verður að það bætist í á hverjum einasta degi núna,“ segir Elmar.

Áhrif á húsnæðisverðbólgu ólíkleg

Elmar segir að hlutfall íbúða sem fjármagnaðar séu að hluta með hlutdeildarlánum sé ekki hátt og þannig hafi breytingarnar ólíklega áhrif á húsnæðisverðbólgu. Segir hann þó aðspurður að það fari alltaf fram greining á þeim áhrifum sem endurskoðun á hámarksverðum hafi. 

„Frá 2020 höfum við veitt 488 lán sem mig minnir að sé í kringum 0,1-0,2% af öllum markaðnum. Við fórum í gegnum samráðsferli með fjármálaráðuneytinu sem á að meta fjármálastöðugleika á Íslandi og hvaða áhrif þetta hefur.“

Segir hann að frekar varfærin leið hafi verið farin núna að einhverju leyti. Að hægt hefði verið að hækka hámarksverðin enn frekar en talið hafði verið að ný hámarksverð nú hermi vel við markaðinn eins og hann er í dag.

Elmar Erlendsson, framkvæmdastjóri lánasviðs HMS.
Elmar Erlendsson, framkvæmdastjóri lánasviðs HMS.

„Komist óstuddir inn á markaðinn“

Elmar segir aðspurður að tæplega 30 lán hafa verið greidd upp nú þegar og það hafi gengið vel. „Markaðsverð þessara eigna sem lánað var fyrir hefur hækkað verulega. Sumir kaupendur sem hafa greitt upp sín hlutdeildarlán hafa búið sér til sitt eigið fé með þessum hætti og í kjölfarið komist óstuddir inn á markaðinn.“

Þá segir hann að ýmiss konar vinna standi yfir innan stofnunarinnar við að uppfæra upplýsingagjöf til hugsanlegra lántaka og móta notendavænna viðmót. Nefnir hann sem dæmi reiknivél sem mun gefa hugsanlegum lántökum góða mynd af því hvort þeir uppfylli skilyrði til lántökunnar. Þó tekur hann sérstaklega fram að HMS vilji að fólk hafi samband því stofnunin veiti ráðgjöf og vilji gera það.

Hvenær áttu von á að reiknivélin verði tilbúin?

„Eigum við ekki að setja pressu á okkur og segja, fljótlega eftir sumarfríin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert