Inga rauk á dyr vegna óverjandi viðbjóðs

Inga Sæland, formaður Flokk fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokk fólksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Inga Sæland rauk á dyr þegar sýnt var myndband af hvalveiðidrápi á fundi atvinnuveganefndar. Í færslu á Facebook sagði hún sýningu myndbandsins óverjandi viðbjóð.

Þá setti hún það í samhengi við blóðmerahald og gagnrýndi Svandísi Svavarsdóttir matvælaráðherra fyrir að hafa ekki viljað banna það út frá dýraverndunarsjónarmiðum. 

Enn að jafna sig 

„Matvælaráðherra mætti fyrir atvinnuveganefnd Alþingis í morgun þar sem ég er einn nefndarmanna. Án varnaðarorða um viðbjóð sýndi hún myndbrot af dauðastríði hvals sem ítrekað var skutlaður aftur og aftur og ég veit ekki hve lengi dauðastríðið hans og kvöl stóð. Ég gjörsamlega brotnaði niður og gat ekki setið undir þessum hryllingi og yfirgaf fundinn á meðan myndbandið var sýnt. Það má kalla það tilfinningaklám og hvað sem er fyrir mér, en þetta er óverjandi viðbjóður, óverjandi með ÖLLU ! Ég er enn að jafna mig,“ segir Inga m.a. í færslu á Facebook.

Blóðmeratíð

Þá segir Inga ráðherrann hafa sagst stöðvað hvalveiðar tímabundið vegna laga um dýravelferð og sagði það hræsni á sama tíma og blóðmeratíð sé hafin.

„Þar sem fylfullar hryssur eru píndar í orðsins fyllstu merkingu, til að gangast undir ofbeldisfulla og skelfilega blóðtöku x1 í viku 8 vikur í röð. Þar er dælt úr þeim allt að 5 lítrum af blóði til að vinna úr því hormónið PMSG sem á að auka t.d. kjötframleiðslu í svínarækt.“

Elskaðar skepnur megi þola mikið 

Þá sagði hún að ráðherra hefði ekki litið við frumvarpi gegn blóðmerahaldi sem Inga hefði tvívegis lagt fram.

„Ráðherrann hefur enn ekki svo mikið sem litið við því að stöðva það. Það er sannarlega kominn tími til þess að ráðherrann skipi fagráð sem leggi mat á raunveruleikann sem þessar tignarlegu og elskuðu skepnur mega þola. En gerir hún það? Hefur ráðherrann orðið fyrir vakningu í starfi sínu og mun í framhaldinu raunverulega vernda dýrin gegn dýraníði? Það er stóra spurningin,“ segir Inga í færslu sinni,


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert