Kópavogur mun taka á móti allt að 101 flóttamanni samkvæmt nýjum samningi Kópavogsbæjar og stjórnvalda um samræmda móttöku flóttafólks.
Þar með hafa níu fjölmennustu sveitarfélög landsins öll undirritað samninga um samræmda móttöku flóttafólks. Heildarfjöldi flóttafólks sem samningarnir ná yfir er orðinn ríflega 3.300, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.
„Ég fagna því að Kópavogur hafi slegist í ört stækkandi hóp sveitarfélaga vítt og breitt um landið sem undirritað hafa samninga um samræmda móttöku flóttafólks,“ er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Samræmd móttaka flóttafólks er hugsuð fyrir þau sem fengið hafa alþjóðlega vernd á Íslandi eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og þurfa stuðning við að ná rótfestu hér á landi.
„Kópavogsbær fagnar því að gengið sé til samninga við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks. Kópavogsbær leggur ríka áherslu á að vel sé staðið að þjónustu við flóttafólk líkt og aðra íbúa sveitarfélagsins. Með þessum samningi sýnir Kópavogsbær ábyrgð enda nauðsynlegt að innviðir standi undir þeim fjölda sem um er samið,“ er haft eftir Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs.