Anna Þóra Baldursdóttir rekur heimilið Haven Rescue Home í Kenía með styrkjum sem aðallega koma frá Íslandi. Þar sem Anna er nú stödd á Íslandi langar hana til þess að kynna starfið betur og býður því til hittings í verslun Bútabæjar á sunnudaginn.
Anna rekur heimilið fyrir ungar stúlkur sem ýmist eru barnshafandi eða mæður ungra barna. Heimilið er alfarið rekið á styrkjum sem ýmist koma frá fylgjendum Önnu á samfélagsmiðlum og á sölu á handgerðum varning frá Kenía.
Á heimilinu búa nú 15 stúlkur á aldrinum 12-18 ára með fimm börn, auk þess sem ein þeirra er barnshafandi. Á heimilinu fá þær þann stuðning sem þær þurfa, hvort sem það er stuðningur til náms, sálfræðiaðstoð eða annað.
Anna Þóra er dugleg að segja frá lífi sínu og stúlknanna bæði á Snapchat-reikningi sínum og á Instagram-reikningi heimilisins Haven Rescue Home. Þrátt fyrir það segist hún reglulega fá spurningar frá fólki sem vill vita meira um starfið.
Þessa dagana er Anna stödd á Íslandi og ákvað því að halda HRH hitting í verslun Bútabæjar, sunnudaginn 25. júní frá klukkan 14:00-16:00. Á staðnum verður lesefni um starfsemina auk þess sem hægt verður að skoða myndir af starfseminni og stelpunum. Þá verður einnig til sölu ýmis varningur til styrktar heimilisins, sem gerður er af heimamönnum í Kenía auk þess sem hægt verður að spyrja Önnu spjörunum úr.