Garðar Ingvar Þormar, sem upphaflega hafði verið dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness, fékk dóm sinn mildaðan í tvö ár í Landsrétti í dag. Voru ýmis atriði reifuð honum til refsilækkunar.
Lögreglan fann um 5,7 kíló af amfetamíni og amfetamínvökva í frystikistu á heimili Garðars. Síðari vigtun á efninu leiddi hins vegar í ljós, að efnið rýrnaði mjög við þurrkun, og var það tiltekið honum til refsilækkunar.
Landsréttur segir í dómi sínum að 17 mánuðir hafi liðið frá því að hann var handtekinn fram að því að ákæra var gefin út. Sá dráttur málsins var ekki Garðari að kenna sem játaði skýlaust brot sín. Telur dómstóllinn dráttinn hafa verið óhóflegan í ljósi fyrirliggjandi játningar og umfang málsins.
Rétturinn tekur eins tillit til þess að gögn bendi til að Garðar sé að koma lífi sínu aftur á réttan kjöl og er það virt honum til refsilækkunar. Sömuleiðis er tiltekið að hann hafi verið samvinnufús við rannsókn málsins. Landrétti þótti því hæfileg refsing vera tveggja ára fangelsi.