Bæjarráð Kópavogs samþykkti í gær að falla frá samningsbundinni launahækkun bæjarstjóra og kjörinna fulltrúa bæjarins í samræmi við þróun launavísitölu. Munu laun bæjarstjóra og annarra kjörinna fulltrúa þess í stað standa í stað. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs.
Kemur þetta í kjölfar mikillar umræðu um hækkanir opinberra fulltrúa og hvort miklar hækkanir, sem ekki hafi hámarksupphæð, skapi aukinn verðbólguþrýsting.
Fyrr í vikunni hafði bæjarráð Garðabæjar og bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkt að hækka laun bæjarstjóra sveitarfélaganna um 2,5% í stað þess að fylgja þróun launavísitölu.
Mosfellsbær hafði áður tilkynnt að laun bæjarstjóra þar myndu hækka um 2,5%, en ríkisstjórnin kynnti fyrr í mánuðinum að launahækkanir æðstu ráðamanna yrðu 2,5% í stað 6% sem launin áttu að hækka samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Hagstofan birti í gær launavísitölu fyrir maí, en ársbreyting hennar mældist 9,6%.
Engin ákvörðun hefur verið tekin um launahækkanir hjá borgarstjóra eða kjörnum fulltrúum í Reykjavík, en Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, sagði við Rúv í vikunni að hann vildi að hækkunin væri ekki meiri en 66.000 krónur, eða 2,5%. Hann taldi þó óvíst að málið kæmist á dagskrá fundar borgarráðs sem haldinn var í gær. Samkvæmt fundargerð þess fundar, sem hefur verið birt, var málið ekki tekið fyrir.