Laun bæjarstjórnar Kópavogs hækka ekkert

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi. mbl.is/Sigurður Bogi

Bæjarráð Kópavogs samþykkti í gær að falla frá samningsbundinni launahækkun bæjarstjóra og kjörinna fulltrúa bæjarins í samræmi við þróun launavísitölu. Munu laun bæjarstjóra og annarra kjörinna fulltrúa þess í stað standa í stað. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs.

Kemur þetta í kjölfar mikillar umræðu um hækkanir opinberra fulltrúa og hvort miklar hækkanir, sem ekki hafi hámarksupphæð, skapi aukinn verðbólguþrýsting.

Fyrr í vikunni hafði bæjarráð Garðabæjar og bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkt að hækka laun bæjarstjóra sveitarfélaganna um 2,5% í stað þess að fylgja þróun launavísitölu.

Laun bæjarstjóra Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Mosfellsbæjar munu hækka um 2,5%, …
Laun bæjarstjóra Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Mosfellsbæjar munu hækka um 2,5%, líkt og hjá æðstu ráðamönnum hjá ríkinu. Enn liggur ekki fyrir hvað laun borgarstjóra Reykjavíkurborgar munu hækka mikið um mánaðamótin. Samsett mynd

Mosfellsbær hafði áður tilkynnt að laun bæjarstjóra þar myndu hækka um 2,5%, en ríkisstjórnin kynnti fyrr í mánuðinum að launahækkanir æðstu ráðamanna yrðu 2,5% í stað 6% sem launin áttu að hækka samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Hagstofan birti í gær launavísitölu fyrir maí, en ársbreyting hennar mældist 9,6%.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um launahækkanir hjá borgarstjóra eða kjörnum fulltrúum í Reykjavík, en Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, sagði við Rúv í vikunni að hann vildi að hækkunin væri ekki meiri en 66.000 krónur, eða 2,5%. Hann taldi þó óvíst að málið kæmist á dagskrá fundar borgarráðs sem haldinn var í gær. Samkvæmt fundargerð þess fundar, sem hefur verið birt, var málið ekki tekið fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert