Fyrirtækið EarthGrid boðar algera byltingu í jarðborunum með nýrri tækni sem fyrirtækið er að þróa. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu við bandaríska fyrirtækið um möguleika á notkun svokallaðrar kyndilborunar við fjölbreytt verkefni á Íslandi.
Meðal þeirra verkefna sem talin eru upp í viljayfirlýsingunni eru jarðgöng fyrir umferð og lagnagöng fyrir vatnsveitur og rafveitur.
mbl.is náði tali af Björgmundi Erni Guðmundssyni, sem er umboðsmaður fyrirtækisins í Norður Evrópu. Sjálfur las hann sér til um tæknina á netinu og setti sig í framhaldinu í samband við stofnanda fyrirtækisins, Troy Helming. Varð þeim strax vel til vina og hefur Björgmundur unnið að framgangi tækninnar á Íslandi og víðar.
Heyra má á tali Björgmundar að hér sé mögulega um byltingakennda tækni í öllum verklegum framkvæmdum neðanjarðar. Borarnir eða kyndlarnir ganga fyrir rafmagni og lofti. Kyndlarnir bræða bergið við allt að tíu þúsund gráður.
Efnið er svo sogað út og skilað í einingum á stærð við morgunkorn. EarthGrid telur sig geta borað göng sem samsvarar allt að einum kílómeter á klukkustund. Núerandi Íslandsmet eru hundarð metrar á einum degi við gerð Kárahnjúkavirkjunar.
Tæknin er enn á þróunarstigi og er áherslan nú að framleiða minni bor, 2,5 metrar í þvermál, sem getur borað minni lagnagöng. Undirritun í Vestmannaeyjum er því engin tilviljun, því að til Eyja þarf í bráð að leggja nýjar vatnslagnir og háspennustrengi.Gæti því borun þjónustuganga til Vestmannaeyja verið kjörið fyrsta verkefni.
Undirritunin fór fram rétt fyrir útför Árna Johnsen, sem alla tíð barðist fyrir betri tengingu milli lands og Eyja.
Björgmundur segir Guðlaug Þór mjög spenntan fyrir verkefninu í tenglsum við leit á heitu vatni. „Þá væri hægt að fara lengri leið og fara undir ákveðin viðkvæm svæði. Jafnframt væri hægt að hafa hitaveitulagnir í jörðu.“ Björgmundur heldur áfram að í framtíðinni væri líka hægt að bora þjónustugöng undir Reykjavík eða aðrar borgir, þar sem öllum lögnum væri komið fyrir með aðgengilegum hætti.
Eigandi Earth Grid, uppfinningamaðurinn Troy Helming, er greinilega mikill ævintýramaður. Athygli hans fram að EarthGrid var einkum á nýtingu sólarorku. Hann hefur verið sýningarmódel á tískuksýningum, verið klappstýra og er afreksmaður í íþróttum, auk þess sem hann stundar jóga af miklu kappi. Hann hefur komið að stjórn margra fyrirtækja í orkulausnum.