Segir strætóbílstjóra hafa læst sig inni

Paschal var á leið til vinnu úr Mjóddinni, þegar bílstjórinn …
Paschal var á leið til vinnu úr Mjóddinni, þegar bílstjórinn læsti hann inni og sakaði hann um að hafa ekki greitt fyrir miðann sinn. Eggert Jóhannesson

Paschal Lucky Okuji, íbúi í Reykjavík, varð fyrir því að vera læstur inn í strætisvagni á þriðjudaginn þegar hann ætlaði úr vagninum. Hann lýsir hegðun bílstjórans sem ógnandi, en Paschal og eiginkona eru ósátt við viðbrögð Strætó og telja gjörðir bílstjórans hafa verið af rasískum toga. Strætó skoðar nú málið, en beðið er upplýsinga, meðal annars frá vagnstjóra.

Í samtali við mbl.is kvaðst Paschal hafa tekið strætisvagn 21 úr Mjóddinni, en hann var á leiðinni á sína fyrstu vakt í nýrri vinnu. Paschal er sjálfur frá Nígeríu og er dökkur á hörund en eiginkona hans, Dagný Kristjáns­dótt­ir Okuji, er íslensk. Hjónin hafa verið búsett í Svíþjóð um nokkurt skeið, en tóku nýverið ákvörðun um að flytja heim til Íslands. 

Læsti dyrunum og byrjaði að öskra

Paschal kveðst hafa sýnt bílstjóranum strætókortið sitt og spurt hvort það dugði ekki til Keflavíkur, en Paschal hóf nýverið störf á Keflavíkurflugvelli. Bílstjórinn svaraði játandi og Paschal settist aftast í strætisvagninn. Þegar komið var að stoppi Paschal stóð hann á fætur og beið eftir að öftustu dyr vagnsins opnuðust. 

„Þegar þær opnuðust ekki hélt ég fyrst að það væri eitthvað að dyrunum og gekk að útgangi vagnsins fyrir miðju. Þegar þær dyr opnuðust ekki heldur, datt mér fyrst í hug að hann væri búinn að frelsissvipta mig.“

Bílstjórinn var þögull á meðan Paschal reyndi að komast út en þegar Paschal spurði hvað væri á seyði brást bílstjórinn illur við og hrópaði á hann að næst ætti hann að greiða fyrir miðann. Paschal varð furðu lostinn og reyndi ítrekað útskýra að hann væri með strætókort og hefði sýnt bílstjóranum, en hann segir bílstjórann hafa gefið lítið fyrir útskýringar hans og haldið áfram að æpa.

Að lokum hafi hann þó náð að sýna honum kortið, en Paschal segir bílstjórann varla hafa trúað eigin augum. Hann hafi þá byrjað að skammast í honum fyrir að sýna ekki miðann þegar hann gekk inn í vagninn.

Hann hefði aldrei læst hurðunum ef ég væri hvítur“

Paschal sagði það fráleit rök enda komist fólk ekki inn í strætó án þess að skanna miðann sinn og hann hafi í þokkabót átt samtal við bílstjórann þegar hann gekk inn í vagninn til að ganga úr skugga um að hann væri með gildan miða. 

„Hann gaf engar útskýringar. Hann gerði bara ráð fyrir að ég væri ekki með miða að því ég er svartur,“ segir Paschal og bætir við að bílstjórinn hefði geta brugðist öðruvísi við þó hann grunaði að Paschal hefði ekki greitt fyrir miðann og einfaldlega gengið upp að sér og spurt í stað þess að læsa dyrunum og meina honum útgöngu.

Paschal segir atvikið hafa verið verulegt áfall og segir engan vafa í hans huga að atburðarásin hefði verið önnur ef hörund hans væri öðruvísi á litinn „Hann hefði aldrei læst hurðunum ef ég væri hvítur, það hefði bara aldrei gerst,“ segir Paschal. 

Eðlileg vinnubrögð að taka fólk í gíslingu?

Dagný, eiginkona Paschal, birti skjáskot, á Facebook hópnum Beauty Tips, af tölvupósti sem þau hjónin sendu á Strætó í kjölfar atviksins, og hefur færslan vakið mikil viðbrögð. Í tölvupóstinum lýsir hún upplifun Paschal og spyr Strætó hvort það teljist til eðlilegra vinnubragða að taka fólk í gíslingu og öskra á það. 

Paschal og Dagný segja viðbrögð Strætó til þessa ófullnægjandi, en í svari til hjónanna kvaðst fyrirtækið taka málinu alvarlega og ætla að ræða við bílstjórann og hafa samband við þau aftur. Þegar ekki bar á frekari svörum frá fyrirtækinu hafði Dagný aftur samband og bað um að vera upplýst um framvindu mála, svaraði fyrirtækið að þau biðu eftir svörum frá bílstjóranum. 

Tölvupóstur Dagnýjar til Strætó.
Tölvupóstur Dagnýjar til Strætó. Mynd/Facebook

Vandræðalegar móttökur

Dagný kveðst undrandi að málinu sé ekki tekið af meiri festu og að allt velti á því hvort og hvenær bílstjórinn velji að svara í stað þess að skoða myndavélarnar og krefja bílstjórann um útskýringar. Strætó hafi beðist afsökunar á atvikinu og sagt að því verði tekið alvarlega en að mati þeirra hjóna hafi það ekki verið sýnt í verki, þegar í raun sé um frelsissviptingu að ræða.

„Þessi maður er ábyggilega ennþá að vinna og maðurinn minn mun þurfa að hitta hann að því hann þarf að taka þennan strætó í vinnuna.“

Dagný segir sér þykja það mjög leitt að fyrsti vinnudagur og fyrsta strætóferð Paschal séu lituð af atvikinu og segir það vandræðalegt fyrir Ísland að móttökurnar séu þessar fyrir einstakling sem hingað sé nýfluttur. 

„Þetta er það fyrsta sem hann lendir í, annan daginn sinn á Íslandi, strax búin að lenda í einhverju misrétti og veseni.“

Brot á verkferlum ef satt reynist

Sigríður Harðardóttir, sviðstjóri mannauðs- og gæðasviðs Strætó kannaðist ekki við málið þegar blaðamaður mbl.is hafði fyrst samband. Við frekari athugun gat hún séð að málið væri í ferli, en ítrekaði að ef satt reyndist væri atvikið í algjöru ósamræmi við starfsreglur Strætó.

Hún segir málið vera komið á borð yfirmanns vagnstjórans og verklagið sé slíkt að hans hlið á málinu verði skráð. Henni virðist hins vegar sem svo að málið geti verið alvarlegt og að í slíkum tilfellum sé óskað eftir upptökum úr öryggismyndavélum. 

„Ef þetta reynist allt rétt að hann hafi af ásetningi ekki opnað hurðina, ekki verið bilun eða annað slíkt, þá er það brot á starfsreglum og því fylgja ákveðin viðurlög,“ segir Sigríður, en bætir við að ávalt séu tvær hliðar á öllum málum og að þær þurfi að kanna áður en lengra sé haldið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert