Snúa við vegna skorts á bílastæðum

Báturinn Gestur er Viðeyjarferjan.
Báturinn Gestur er Viðeyjarferjan. Ljósmynd/elding.is

Mikill skortur er á bílastæðum fyrir almenning á Skarfabakka í Sundahöfn. Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Eldingar, segir í samtali við mbl.is dæmi vera til um að fólk hafi snúið við þar sem engin bílastæði hafi verið laus. 

Fyrirtækið Elding rekur Viðeyjarferjuna og yfir sumartímann er mikil aðsókn í hana. Gestir hafa þó margir komist að því við mætingu að lítið er um bílastæði. Rannveig segir að fyrir séu um 15 bílastæði en í þau leggja oft á tíðum rútur og bílar sem eiga þar lítið erindi. 

Hefur þetta valdið óþægindum fyrir viðskiptavini sem hafa þurft að leggja í bílastæði í þó nokkurri fjarlægð og sumir jafnvel hætt við ferjuferð til Viðeyjar.

Versnandi ástand

Rannveig segir Faxaflóahöfn reyna að fjarlægja rúturnar en að þær komi aftur jafnóðum. 

„Þetta er búið að vera versnandi ástand síðustu tvö árin,“ segir hún en viðurkennir þó að hún viti ekki nákvæmlega hver lausnin sé að svo stöddu.

„Það þyrfti mögulega að setja upp skilti sem skilgreina ákveðin stæði bara fyrir farþega í Viðeyjarferjuna,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert