Tófa ógnar tjöldum á golfvellinum í Gufudal

Tjaldurinn hreiðraði um sig í glompunni á sjöttu braut.
Tjaldurinn hreiðraði um sig í glompunni á sjöttu braut. mbl.is/Björn Jóhann

Það er ekki óalgengt að fuglar hreiðri um sig á golfvelli Hvergerðinga í Gufudal, að sögn Einars Lyng Hjaltasonar, rekstrarstjóra golfvallarins og golfkennara. Í sumar hefur tjaldur legið á eggjum og komið upp ungum á sjöttu braut golfvallarins og spói gerði sér hreiður á fyrstu braut vallarins.

Tvísýnt var um afdrif tjaldanna í glompunni í gærmorgun því tófa olli þar nokkrum usla, að sögn Einars. Þegar hann mætti til vinnu sá hann um 20 tjalda við glompuna reyna að vernda ungana fyrir lágfótu. Einari tókst að hrekja tófuna á brott og gat staðfest það í gær að tjaldsungarnir hefðu sloppið óskaddaðir. Örlög tófunnar kunna hins vegar að verða verri en tjaldanna, en hennar er nú leitað af skyttu á vegum bæjarins. Einar segir að vitað sé um tófugreni í hlíðinni ofan við völlinn og tófurnar hafi leikið kindur í nágrenninu grátt.

Blámerkja varpsvæðin

Fleiri fuglar hafa nýtt sér golfvöllinn til hreiðurgerðar í sumar. Fyrr í vikunni fór þar fram golfmót og þegar einn kylfinganna, sem sló kúlu sinni mjög nálægt glompu á fyrstu holunni, freistaði þess að slá kúluna áfram réðist á hann spóapar sem hafði hreiðrað um sig í glompunni, að sögn Einars.

Einar segir kylfinga sýna fuglunum mikla þolinmæði meðan á varptímanum stendur. Brugðið hafi verið á það ráð að blámerkja svæði þar sem fuglarnir hafa hreiðrað um sig, til þess að vernda fuglana. Fuglunum stafar því meiri hætta af tófunni en af kylfingum, enda óheimilt að slá kúlu innan blámerkts svæðis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert