Undirbúa stofnun þjóðaróperu

Frá Don Giovanni eftir Mozart í uppsetningu Íslensku óperunnar. Nú …
Frá Don Giovanni eftir Mozart í uppsetningu Íslensku óperunnar. Nú stendur yfir undirbúningur stofnunar þjóðaróperu. Mbl.si/Styrmir Kári

Tveir starfshópar innan menningar- og viðskiptaráðuneytisins hafa skilað tillögum eftir umfangsmikla grunnvinnu um mögulega þjóðaróperu á Íslandi. Fjórar sviðsmyndir voru mótaðar innan ráðuneytisins og kynntar óperusamfélaginu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Stjórnarráði Íslands í dag.

Auglýst verður eftir verkefnisstjóra til að sjá um undirbúning að stofnun þjóðaróperu auk þess sem ráðgjafaráð mun vera honum innan handar í ferlinu.

Þórunn Sigurðardóttir verður formaður ráðsins og tveir ráðsmenn verða þá tilnefndir af Bandalagi íslenskra listamanna, þær Þóra Einarsdóttir og Þórunn Gréta Sigurðardóttir, en Erling Jóhannesson og Páll Ragnar Pálsson eru tilnefndir til vara.

Auglýst verður eftir verkefnisstjóra í lok sumars.

Fjölmörg sóknarfæri

„Það er ljóst að fjölmörg sóknarfæri liggja í því að efla umgjörð um óperustarfsemi hér á landi,“ er haft eftir Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra í fréttatilkynningu Stjórnarráðsins.

„Það er mikilvægt að halda áfram með markvissum hætti þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram og miðar að því að koma á fót þjóðaróperu. Með ráðningu verkefnisstjóra að þessum undirbúningi verður hægt að móta ramma verkefnisins og kostnaðarþætti, skilgreina uppbyggingu innviða, samstarfsfleti og listræna möguleika,“ er haft eftir Þórunni Sigurðardóttur, formanni ráðgjafaráðsins.

Skoða þarf nánar, í samstarfi við stofnanir og sérfræðinga í óperustarfsemi, hvaða sviðsmynd væri líklegust til árangurs í íslenskum aðstæðum og í hvernig útfærslu, að því er fram kemur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert