Veltan aukist um 89% síðustu ár

Mikil ánægja er með stuðning við bókaútgáfu sem komið var …
Mikil ánægja er með stuðning við bókaútgáfu sem komið var á fyrir fjórum árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessi aðgerð kom bókabransanum til bjargar, það hefði farið illa ef endurgreiðslan hefði ekki komið til. Það er því auðvitað ánægjulegt að vilji ráðherra sé skýr,“ segir Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda.

Lög um tímabundinn stuðning við útgáfu bóka á íslensku eru nú til endurskoðunar en umrætt úrræði á að óbreyttu að renna út um áramót. Það felur í sér að útgefendur fá hluta kostnaðar við útgáfuna endurgreiddan. Á málþingi sem menningar- og viðskiptaráðuneytið hélt um bókmenntir og útgáfu á dögunum kom hins vegar fram skýr yfirlýsing frá Lilju Alfreðsdóttur um að stuðningurinn verði framlengdur. Sagði Lilja að gert væri ráð fyrir endurgreiðslunni í fjármálaáætlun næstu ára. Ekki náðist í Lilju við vinnslu fréttarinnar í gær.

Rætt um stöðu Storytel

Heiðar Ingi segir í samtali við Morgunblaðið að nú standi yfir í ráðuneyti menningarmála vinna við mat á áhrifum endurgreiðslunnar. Það mat hafi reyndar átt að liggja fyrir um síðustu áramót. Deloitte mun skila úttekt þar sem meðal annars verður rýnt í fjölbreytni í útgáfu á milli flokka.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur verið til umræðu hvort raunhæft sé að breyta endurgreiðslukerfinu svo fjármunir nýtist betur. Í bókabransanum hefur til að mynda verið rætt hvort rétt sé að Storytel geti sótt sér háar upphæðir í endurgreiðslu en fyrirtækið hefur verið í umræðunni undanfarið sökum gagnrýni á það hversu rýran hlut rétthafar bera frá borði í útgáfu þess. Engar útfærslur eða lausnir hafa þó verið nefndar enda kynnu takmarkanir á því hverjir eiga rétt á endurgreiðslu að bitna á útgefendum, sem síst skyldi.

Heiðar Ingi segir að stóra málið sé að skoða árangur sem náðst hafi eftir að endurgreiðslunni var komið á í ársbyrjun 2019. Velta bókaútgáfu dróst saman um 41% frá 2008 til 2017 en viðsnúningur hefur orðið á eftir að endurgreiðslan kom til. „Veltan hefur aukist á þessum fjórum árum um 2,1 milljarð, fór úr 2,4 milljörðum í 4,6 milljarða í fyrra. Í prósentum talið er þetta 89% aukning sem er langt umfram þær væntingar sem lagt var upp með í byrjun.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert