Mosfellsbær hefur kynnt tillögu að rammahluta aðalskipulags vegna Blikastaðalands. Gert er ráð fyrir hátt í tíu þúsund manna íbúðabyggð á svæðinu.
Blikastaðaland er kennt við bæinn Blikastaði. Það er um 98 hektara land sem liggur á mörkum Staðahverfis í Grafarvogi í Reykjavík og Höfðahverfisins í Mosfellsbæ. Skipulagssvæðið (sjá kort) er eitt stærsta óbyggða svæðið á höfuðborgarsvæðinu, ef ekki það stærsta.
Gert er ráð fyrir 3.500 til 3.700 íbúðum í Blikastaðalandi. Miðað við að 2,4 búi að jafnaði í íbúð gætu því 8.400 til 8.900 manns búið í hverfinu.
Ef aðalskipulag verður tilbúið á næsta ári tekur við vinna við deiliskipulag svæðisins, sem verður byggt í áföngum. Ef deiliskipulag verður tilbúið um áramótin 2024/2025 gætu framkvæmdir hugsanlega hafist 2025. Gerðar hafa verið ítarlegar rannsóknir á svæðinu, þ.m.t. af hálfu ÍSOR og ráðgjafafyrirtækisins COWI.
Jafnframt eru hugmyndir um 60 þúsund fermetra blandaða byggð meðfram Vesturlandsvegi. Þar er áformað að byggja atvinnuhúsnæði og íbúðir sem snúa að Blikastaðalandi. Fjöldi fermetra í þessari blönduðu byggð, sem og samanlagður fermetrafjöldi á svæðinu, liggur ekki endanlega fyrir.
Tillaga að rammahluta aðalskipulags var kynnt á íbúafundi 15. júní síðastliðinn. Svæðið verður síðan þróað frekar og verður deiliskipulag kynnt síðar. Til stendur að byggja hverfið í áföngum. Jafnframt verður hvert hverfi sjálfstætt hvað varðar gatnakerfi, græna geira og byggð.
Nánar er fjallað um uppbyggingaráform í Blikastaðalandi í Morgunblaðinu í dag.