Það var sannarlega líf og fjör í Gufunesi þegar mbl.is leit við til að skoða glænýjan fjallahjólreiðagarð sem opnaði í vikunni. Um er að ræða fyrsta fjallahjólreiðagarðinn á höfuðborgarsvæðinu og er hann hannaður fyrir breiðan aldurshóp.
Nýtur garðurinn strax töluverðra vinsælda. mbl.is ræddi við Magne Kvam, stofnanda og eiganda Icebike Adventures, og nokkra hressa hjólreiðakappa úr Brettafélagi Hafnafjarðar og Hjólreiðafélagi Reykjavíkur.
Verkefnið, sem erum á vegum Reykjavíkurborgar og hlýtur stuðning þaðan, er unnið í samstarfi við fjallahjólreiðafyrirtækið Icebike Adventures.
„Það eru fjallahjólreiðagarðar annars staðar á landinu en það vantaði garð á höfuðborgarsvæðið,“ segir Magne. Hann segir garðinn vera kominn til að vera og aðsóknina hafa verið frábæra. „Það komu hundrað krakkar hingað í gær og þetta er eiginlega sprungið nú þegar.“
Hann segist vona að hægt verði að dreifa álaginu með því að byggja upp fleiri fjallahjólreiðasvæði á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er klárlega eitthvað sem vantar. Það er hópur krakka úr Brettafélagi Hafnafjarðar að æfa hérna núna og þeim vantar eitthvað nær sínum heimabæ.“
Krakkarnir úr Brettafélagi Hafnafjarðar og Hjólreiðafélagi Reykjavíkur taka undir með Magne og eru ánægð með æfingasvæðið. „Það er geggjað að vera loksins komin með svona gott stökkbretti.“