„Gullið tækifæri fyrir Úkraínu til að herða ennþá meira á sókninni“

Dr. Jón Ólafsson, prófessor í Rússlandsfræðum og menningarfræði við Háskóla …
Dr. Jón Ólafsson, prófessor í Rússlandsfræðum og menningarfræði við Háskóla Íslands, telur að því lengri tíma sem það taki að stöðva Wagner-hópinn því meiri verði ringulreiðin í Rússlandi. Samsett mynd

„Það er frekar erfitt að átta sig á hvað er verið að reyna, mér finnst frekar ólíklegt að hópurinn sem segist vera á leið til Moskvu, vopnaður og vígbúinn, muni gera mikinn óskunda þar en maður veit hins vegar ekki nógu mikið um það hvaða áhrif þetta getur haft inni í kerfinu, á einstaka stofnanir og einstaklinga og hversu mikinn usla þetta getur haft í för með sér að því leyti,“ segir dr. Jón Ólafsson, prófessor í Rússlandsfræðum og menningarfræði við Háskóla Íslands, spurður í samtali við mbl.is um ástandið í Rússlandi.

Stjórnvöld hljóta að vilja ná Prigósjín sjálfum

Þá telur Jón ekki líklegt að það stefni í styrjöld í Moskvu en spurningin sé hins vegar sú hversu langan tíma það muni taka Pútín og rússnesk stjórnvöld að kveða ástandið niður.

„Ef Prigó­sjín og Wagner-hópnum tekst að halda til streitu, kannski í 2-3 daga eða lengur, einhvers konar andspyrnuhreyfingu gegn stjórnvöldum þá getur það farið að hafa afleiðingar. Ef hins vegar tekst að kveða þetta niður mjög hratt, í dag eða á morgun, þá er staðan allt önnur og það hlýtur að vera algjört forgangsmál fyrir stjórnvöld í Rússlandi að ná Prigósjín sjálfum.“

Wagner-hópurinn áberandi á miðlum

Að mati Jóns hefur ástandið afleiðingar fyrir stríðsrekstur Rússa þar sem það veiki stöðu þeirra verulega. Þá sé óvíst hvort herinn nái að virka eins og hann eigi að gera á meðan það ríki óvissuástand í Moskvu og víðar um landið.

„Það hlýtur að vera markmið Prigósjíns og hans manna að halda þessu óvissuástandi eins lengi og þeir geta,“ segir Jón og bætir því við að Wagner-hópurinn hafi á síðustu mánuðum verið mjög áberandi á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum en svo hafi ekki verið í byrjun stríðsins.

„Þeir hafa frá því í haust verið í auknum mæli að skapa sér ímynd og hafa haldið því statt og stöðugt fram að rússneski herinn, hinn venjulegi herafli, sé mjög illa rekinn og illa stjórnað og einu hermennirnir sem einhver dugur sé í séu Wagner-liðarnir. Þetta hefur kannski fengið vissan hljómgrunn en það nær fyrst og fremst til þeirra sem fylgjast af athygli með stríðinu, sem á alls ekki við um allan almenning í Rússlandi. Þannig að þessi átök hafa engin áhrif út í samfélagið, þau hafa fyrst og fremst áhrif inni í stjórnkerfinu, í öryggisstofnunum og hernum.“

Glundroðinn meiri eftir því sem tíminn líður

Spurður út í ringulreiðina sem mögulega getur skapast í Moskvu á næstu dögum svarar Jón því til að því lengri tími sem líði því meiri verði glundroðinn.

„Til dæmis í morgun var mikið um það fjallað í félagsmiðlum aðallega að verið væri að loka öllum leiðum að Moskvu en borgarstjórinn lagði sig mjög fram um að reyna að bera þetta til baka og halda því fram að það steðjaði engin ógn að borginni. Það sem myndi gerast væri takmarkað og bundið við ákveðin svæði.“

Þá segir Jón ástandið fyrst og fremst snúast um ásýndina og að láta líta út fyrir að Wagner-hópurinn sé miklu öflugri, stærri og áhrifameiri en hann í rauninni er. 

„Krafa þeirra virðist fyrst og fremst snúast um það að Pútín losi sig við varnarmálaráðherrann og yfirmann heraflans en Pútín tók mjög afdráttarlausa afstöðu strax. Það er eins og Prigósjín og hans menn hafi haldið að hann myndi mögulega ekki gera það, að hann myndi á einhvern hátt snúast á þeirra band sem mér finnst nú reyndar frekar furðuleg hugmynd.“

Nýtt sóknarfæri fyrir Úkraínu

Jón segir að þá verði tíminn að leiða í ljós hver útkoman verður þar sem óvissuþættirnir séu margir. Þá eigi einnig eftir að skýrast hvort Prigósjín hafi tekist að sá einhverjum fræjum efasemda innan kerfisins sem gætu orðið til þess að það verði meiri þrýstingur á Pútín að gera einhverjar breytingar.

Að lokum telur Jón að í þessu ástandi felist mikið tækifæri fyrir Úkraínumenn þar sem þeirra gagnsókn hafi gengið hægar en búist var við.

„Ef það er klofningur og ringulreið innan rússneska hersins þá mun það strax birtast í undanhaldi og minni árangri í stríðsrekstrinum. Það eru margir sem hafa talað um þetta sem gullið tækifæri fyrir Úkraínu til þess að herða ennþá meira á sókninni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka