Hinn 16. júní hélt grínistinn Jakob Birgisson til Litháens þar sem hann fór með uppistand á árlegu Íslandshátíðinni „Takk Ísland“. Hátíðinni er ætlað að fagna því er Ísland varð fyrst allra landa í heiminum til þess að viðurkenna sjálfstæði Litháens árið 1991.
Jakob hélt til Litháens 15. júní, en hans beið langt stopp á Kastrup-flugvellinum í Kaupmannahöfn.
„Ég var í svo löngu stoppi á Kastrup að mig nánast dagaði uppi þarna. Ég var bara orðinn eins og eitthvert húsgagn,“ segir Jakob léttur í bragði. Hann lenti í Vilníus seint að kvöldi og ákvað að skoða sig um strax morguninn eftir.
„Vilníus er víst ein grænasta borg Evrópu og þar er frábært loftslag,“ segir Jakob sem spókaði sig um á hlaupahjóli fyrri part dags, en áður en að uppistandinu kom fannst honum mikilvægt að afla sér upplýsinga um staðhætti og fá innsýn inn í pólitískt landslag Litháens.
Eftir að Jakob hafði velt fyrir sér hvernig best væri að fræðast um Litháen ákvað hann að hringja í Össur Skarphéðinsson fyrrverandi utanríkisráðherra.
„Ég fann bara númerið hans á Facebook, hringdi í hann og hann tók því vel,“ segir Jakob. Hann segir samtalið við Össur hafa verið fróðlegt og hafa hjálpað sér að fá betri tilfinningu fyrir sögu landsins.
„Spjallið við Össur fyllti mig eldmóði fyrir kvöldið,“ segir Jakob sem hélt síðan upp á svið og flutti uppistand sitt við góðar undirtektir.
Að sögn Jakobs var mikið um að vera á viðburðinum Takk, Ísland, en hann var haldinn í Íslandsstræti sem er gata tileinkuð Íslandi í Vilníus. Markmið viðburðarins, sem haldinn hefur verið árlega undanfarin 12 ár, er að þakka Íslendingum fyrir að vera fyrstir þjóða til þess að viðurkenna sjálfstæði Litháens.
„Maður fann fyrir því að fólk hefði ákveðna aðdáun á Íslandi, en þarna þekkja allir Mr. Hannibalsson,“ segir Jakob og vísar þá til Jóns Baldvins Hannibalssonar fyrrverandi utanríkisráðherra, sem átti frumkvæði að viðurkenningu sjálfstæðis Litháens fyrir Íslands hönd fyrir rúmum 30 árum.
Jakob segist hafa upplifað mikið þakklæti í garð Íslendinga, samstöðu meðal Litháa og samkennd í garð Úkraínumanna á viðburðinum. Saga landsins sé þung og því sé mikilvægt að fólk reyni að hlæja líka og skemmta sér.
„Maður finnur að sagan er í eðli sínu þung og þess þá heldur þarf að létta andrúmsloftið með gríni. Maður fann að þetta var nærandi viðburður, en þarna var mikil samstaða í garð Úkraínu sem og sjálfstæðis þessarar þjóðar sem lengi þurfti að búa undir oki Rússlands,“ segir Jakob.
Jakob segir ferðina hafa verið mjög ánægjulega og telur það mikinn heiður og einstakt tækifæri að hafa fengið að skemmta í Vilníus. Hann segist ekki hafa skemmt mikið erlendis hingað til, en vinnur í augnablikinu að því að þróa uppistand á ensku. „Ég segi bara takk Vilníus,“ segir Jakob að lokum.