Yfirskattanefnd komst að þeirri niðurstöðu að félagasamtökin Afrekshugur skyldu greiða virðisaukaskatt vegna innflutnings á afsteypu af verkinu Afrekshugur eftir Nínu Sæmundsson. Formaður félagsins, Friðrik Erlingsson, segir að yfirskattanefnd hafi ekki litið á heildarmyndina og horft til þess að um hafi verið að ræða einstakt verkefni sem samfélagið í sameiningu hafi staðið að. Litið hafi verið blint á lagabókstafinn, enda ljóst að félagið hafi eingöngu verið stofnað í þeim tilgangi að færa Rangárþingi eystra þessa menningargjöf.
Upprunalega listaverkið stóð framan við Waldorf Astoria-hótelið í New York, en félagið fékk þrívíddarskönnun af styttunni svo hægt væri að gera afsteypu af verkinu. Í kjölfarið hófst söfnun svo hægt væri að fjármagna afsteypuna. „Við í stjórn þessa félags leituðum eftir tilboðum í afsteypugerðina og hófum svo almenna söfnun til þess að þetta gæti gerst. Þetta er fyrst og fremst menningarsögulegt verkefni og Nína einn frægasti listamaður héraðsins,“ segir Friðrik. „Það var í þessum anda sem verkefnið fór af stað, til þess að heiðra hennar minningu og færa þessa frægustu styttu hennar, sem er eitt af einkennistáknum New York-borgar, heim í hérað henni til sóma og minningar,“ segir Friðrik.
Greinir hann frá því að hann hafi fengið upplýsingar þess efnis að fyrsta afsteypa listaverks væri ávallt undanþegin virðisaukaskatti.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.