Í Alþýðuhúsinu á Siglufirði hefur listakonan Aðalheiður S. Eysteinsdóttir komið sér vel fyrir. Hún býr og starfar í húsinu þar sem einnig má finna stóra vinnustofu og Kompuna, lítinn sýningarsal þar sem reglulega eru haldnar sýningar. Í eldhúsi Aðalheiðar má finna skrautlega muni frá fyrri tímum; litríka staka bolla sem eitt sinn tilheyrðu stelli, prjónaðar dúkkur sem hvíla í gömlum og lúnum sofa og þar eru skúffur og hillur í öllum regnbogans litum, en Aðalheiður segist vera með söfnunaráráttu, aðallega fyrir dóti sem aðrir vilja henda. List Aðalheiðar er Íslendingum að góðu kunn og er hún kannski þekktust fyrir viðarskúlptúra, stóra og smáa. Síðustu ár hafa þó lágmyndir og málverk á timbur átt hug hennar allan.
Við setjumst við eldhúsborðið og gesturinn fær að sjálfsögðu kaffi hjá Sigfirðingnum Aðalheiði sem varð sextug þann 23. júní. Hún segist alltaf halda upp á stórafmæli og heldur í þann sið áfram. En við komum að því síðar.
Víkur nú talinu að myndlistarverkum Aðalheiðar, en margir þekkja stóra skúlptúra hennar þar sem hún býr til manneskjur úr spýtum.
„Árið 1996 setti ég upp fyrstu sýninguna með litlum fígúrum. Skömmu síðar, eða 1999, setti ég upp sýningu með stórum fígúrum, sem voru samt ólíkar þeim sem ég geri í dag. Það var svo þegar einn vinur okkar átti fertugsafmæli að upp kom sú hugmynd að ég myndi smíða styttu af honum í fullri stærð, en áður hafði ég verið að gera litlar styttur af listamönnum úr viði; eins konar portrett myndir,“ segir hún og segist hafa smíðað þessa styttu af afmælisbarninu.
„Þá komst ég á bragðið en ég hef alltaf þurft að gera stórt. Verkin mín þurfa að vera stærri en ég, svo ég gæti einhvern veginn gengið inn í þetta ævintýri sjálf,“ segir Aðalheiður.
„Þegar ég fór að vinna með timbrið sá ég að ég þurfti að nota vélsagir, en ég var ekkert spennt fyrir þeim, enda hafði ég sagað framan af fingri þegar ég var unglingur í fiskvinnslu. Þegar ég fór að hugsa hvernig ég gæti stækkað verkin án þess að nota vélsagir, datt mér í hug að ég gæti bara hrúgað upp timbrinu, í stað þess að saga. Þar með hefst þetta ævintýri,“ segir Aðalheiður og segist þó hafa náð að sættast við vélsagir, því eitthvað þarf hún alltaf að saga.
„Vélsög, stingsög og borvélar eru eins og framlenging á höndunum á mér og hafa verið það í 25 ár. Það eru blýantar mínir í dag. Ég tala oft um það að ég sé í raun að teikna með timbri.“
List Aðalheiðar er fjölbreytt, en auk þess að mála og „teikna með timbri“ hefur hún framið gjörninga, búið til stórar innsetningar, lágmyndir og málverk sem hún málar á timburplötur. Aðalheiður vinnur þessa dagana mest í lágmyndum, nokkuð sem hún byrjaði á fyrir sautján árum.
„Ég fór í raun og veru aftur að raða saman eins og ég hafði gert í upphafi listferilisins. Í gegnum tíðina hef ég alltaf verið að setja saman abstrakt samstæður þar sem ég læt efni og dót njóta sín,“ segir hún og segist einnig hafa verið upptekin af því að raða saman fundnum hlutum sem eru í nákvæmlega sömu stærð.
„Ég fann eitt sinn rúllaða sígarettu sem var ellefu sentimetrar, nákvæmlega. Þá gekk ég um húsið eins og óð manneskja að leita að hlutum sem allir væru ellefu sentimetrar,“ segir hún og hlær.
„Ég fann um fimmtíu, sextíu hluti sem allir voru ellefu sentimetrar og raðaði þeim saman. Ég hef gaman af svona leikjum og er ótrúlegur safnari. Ég sanka að mér hlutum sem mér finnst fallegir, eins og kökukefli. Ég á um hundrað og hef raðað þeim upp á vegg sem skúlptúrum. Ég hendi aldrei töppum af neinu, netum af lauk eða sandpappírsbútum sem ég nota svo í verk,“ segir hún og brosir.
„Það eru svo mikil hversdagsverðmæti í þessum hlutum,“ segir Aðalheiður og segist einmitt hafa sýnt í fyrra röð af abstrakt skúlptúrum sem voru öll metri á hæð.
„Eftir öll þessi ár að vinna með timbur er ég búin að taka timbrið þannig í sátt að mér finnst við vera samstarfsaðilar. Timbrið leggur til teikninguna en ég litina og málverkið. Ég er farin að gera málverk þar sem ég mála á krossviðarplötur þar sem ég og viðurinn vinnum saman. Það er allt leyfilegt og það hentar mér mjög vel. Ég hef alltaf treyst eigin innsæi og stend og fell með því.“
Til að halda upp á sextugsafmælið mun Aðalheiður fara hringinn í kringum landið með rútu af vinum og vandamönnum og fremja sextíu gjörninga á sex dögum. Hún segir það klárlega verða mikið maraþon, en hún er vön. Á laugardag ferðast hópurinn frá Seyðisfirði til Víkur og á sunnudag frá Selfossi til Stykkishólms svo eitthvað sé nefnt, en dagskrána má finna á Facebook undir viðburðinum 60 gjörningar á 6 dögum, inni á heimasíðu fjallabyggd.is, auk heimasíða safna sem heimsótt verða.
„Ég er þekkt fyrir að halda veglega upp á stórafmæli. Þegar ég var fertug hélt ég fjörutíu sýningar á fjörutíu dögum í fjórtán löndum. Eftir þessar fjörutíu sýningar sá ég að þetta var aðeins of mikið maraþon þannig að ég byrjaði að halda upp á fimmtugsafmælið þegar ég var 45 ára. Þá hélt ég fimmtíu sýningar á fimm árum og lauk því á fimmtugsafmælisdaginn minn,“ segir Aðalheiður og segist þá hafa haldið tíu stórar einkasýningar á hverju ári í fimm ár.
„Það var nú eiginlega maraþon líka!“ segir hún og hlær.
Ítarlegt viðtal er við Aðalheiði í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.