Elísa A. Eyvindsdóttir
Hjólreiðakeppni sem fer um Friðland að Fjallabaki verður haldin 22. júlí næstkomandi. Leiðin er 200 kílómetrar og hefst keppnin á Hvolsvelli, en er svo hjólað upp á Fjallabak, í kringum Heklu og að lokum aftur niður að Hvolsvelli. Er þetta malarhjólakeppni (e. gravel race) og ein af þremur stærstu hjólreiðakeppnum af þessu tagi í Evrópu.
Eru keppendur 1.200 talsins og langstærstur hluti þeirra útlendingar, eða 91-92 prósent, að sögn Ólafs Thorarensen, markaðsstjóra hjá Lauf cycling. Koma hjólreiðagarparnir alls staðar að úr heiminum og er keppnin gríðarlega eftirsótt en uppselt hefur verið í keppnina í marga mánuði enda dreymir marga um að keppa hér á landi. Þetta er í þriðja skiptið sem keppnin hefur verið haldin en fyrsta árið sem hún var haldin voru keppendur 250. Hefur aðsókn í keppnina því stóraukist.