Bifreið kastaðist út í Markarfljót

Bíll hafnaði út í Markarfljóti snemma í morgun en svo …
Bíll hafnaði út í Markarfljóti snemma í morgun en svo virðist sem hann hafi lent á vegriði og kastast þaðan út í vatnið. Ljósmynd/Aðsend

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út á sjöunda tímanum í morgun vegna bifreiðar sem lent hafði í Markarfljóti en rétt upp úr klukkan sex bárust björgunarsveitum á Suðurlandi boð um bílinn.

Björgunarsveitafólk fór á gúmbáti að bílnum.
Björgunarsveitafólk fór á gúmbáti að bílnum. Ljósmynd/Aðsend

Lenti á vegriði

Svo virðist sem bíllinn hafi lent á vegriði við brúna og kastast þaðan út í fljótið. Straumurinn bar svo bílinn nokkuð niður ána áður en hann stöðvaðist.

Þegar björgunarfólk kom á staðinn var ökumaður bílsins, kona sem var ein á ferð, komin að sjálfsdáðum út úr bílnum. Björgunarfólk sigldi á gúmbáti að bílnum og gat komið henni upp á þak hans en hún var orðin köld og nokkuð skelkuð.

Konan var ein á ferð og orðin köld og hrædd …
Konan var ein á ferð og orðin köld og hrædd þegar komið var að henni í ánni. Ljósmynd/Aðsend

Flutt á sjúkrahús til aðhlynningar

Þegar yfirvofandi hætta var að mestu afstaðin var tekin sú ákvörðun að bíða komu þyrlu, sem hafði verið kölluð út nokkru áður, frekar en að freista þess að koma konunni kaldri og stirðri í gúmbátinn.

Konan var síðan flutt með þyrlunni á sjúkrahús til aðhlynningar.

Björgunarsveitum tókst tæpri klukkustund síðar að koma bílnum upp úr ánni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka