Búast má við talsverðri rigningu á suðaustanverðu landinu í dag og aftur á þriðjudag, ef marka má hugleiðingar veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Í dag verður suðaustanátt, yfirleitt á bilinu 5-13 metrar á sekúndu og víða rigning eða súld, einkum suðaustanlands.
Síðdegis styttir að mestu upp norðaustantil og um sunnanvert landið í kvöld. Hiti verður á bilinu 10 til 18 stig, hlýjast fyrir norðan.
Á morgun má búast við suðaustan 5-10 metrum á sekúndu og víða skúrum en bjart með köflum norðaustantil á landinu. Hiti breytist lítið.