„Ég bý hvergi núna“

Dr. Ragnheiður Soffía Gunnarsdóttir hlaut Blanshard-verðlaunin við Yale-háskóla fyrir framúrskarandi …
Dr. Ragnheiður Soffía Gunnarsdóttir hlaut Blanshard-verðlaunin við Yale-háskóla fyrir framúrskarandi doktorsritgerð sína í listasögu. Ljósmynd/Aðsend

„Þessi verðlaun heita Blanshard Fellowship Prize og eru afhent árlega fyrir framúrskarandi doktorsritgerð í listasögu við Yale-háskólann,“ segir Ragnheiður Soffía Gunnarsdóttir, 31 árs gamall nýbakaður doktor í því fagi við hinn fornfræga bandaríska háskóla Yale og einmitt handhafi þessara virtu verðlauna í ár.

Fjallaði doktorsritgerð Ragnheiðar, sem var einu sinni Reykvíkingur en hefur nú alið manninn erlendis um langt árabil, um leirlist í helgum véum Grikklands til forna. „Í þessari ritgerð sýndi ég fram á að hlutir, sem eru búnir til úr leir, þar á meðal pottar, með máluðum myndum af fólki, guðum og skepnum, hafi verið búnir til og skildir eftir á helgustu svæðum Grikklands og þannig helgaðir guðunum, svo sem Seifi og Aþenu,“ útskýrir doktorinn og verðlaunahafinn.

Bækistöð heilunar og lækningarmáttar

Tók Ragnheiður fyrir stóra og vel þekkta staði úr menningar- og listasögu, svo sem Akrópólis í Aþenu, en einnig löngu gleymda staði sem ekki hefur farið eins mikið fyrir á gríska meginlandinu og grísku eyjunum. Þá skoðaði hún einnig leirlist á Ítalíu, í Egyptalandi, við Svartahaf og vesturströnd Tyrklands.

Afhending Frances Blanshard Fellowship Prize-verðlaunanna sem Ragnheiður Soffía hlaut fyrir …
Afhending Frances Blanshard Fellowship Prize-verðlaunanna sem Ragnheiður Soffía hlaut fyrir bestu ritgerð sem varin var í listasögudeild Yale-háskóla 2022-2023. Ljósmynd/Aðsend

„Á þessum helgu svæðum voru mannvirki á borð við hof og altari, og líka stundum minnisvarðar eins og súlur og styttur, og oft voru þessu helgu vé kringum mjög forna grafreiti, til dæmis frá Míkeníu-tímabilinu sem er þá eldra. Í sumum tilfellum flykktust menn í pílagrímsferðir til þessara staða, til dæmis til Delfí á meginlandi Grikklands, þar sem var véfrétt, og annað þekkt dæmi er Epidauros sem var þekkt sem bækistöð heilunar og lækningarmáttar guðsins Askeplíosar,“ segir Ragnheiður af fræðum sínum og rannsóknum.

Ritgerð hennar skiptist í átta kafla og birti hún hvorki meira né minna en 300 myndir með skrifunum. „Margar þeirra tók ég bara sjálf á rannsóknarferðalögum. Með þessu færði ég rök fyrir því að fólk fyrir um 2.500 árum hefði litið svo á að efniviður, listsköpun og listsköpunarferli hefði verið þungað mætti guða og annarra afla sem í sumum tilfellum hafi verið óviðeigandi að gera grein fyrir nema með gerð hluta og mynda,“ segir Ragnheiður af innlifun og blaðamaður getur ekki annað en fyllst hálfgerðri lotningu þrátt fyrir myndlistaráhuga við frostmark.

En býrðu þarna í Connecticut núna?

„Nei nei, ég er útskrifuð, ég bý hvergi núna, ég er í svona millibilsástandi. Ég er á Íslandi í stofunni hjá pabba mínum í einhverjar vikur en maðurinn minn býr í Georgíu-fylki. Hann er þó sjálfur að fara að flytja og þegar við vitum hvert það verður fer ég þangað. En það verður alla vega í Bandaríkjunum,“ svarar doktorinn.

Anthony Ruberto, maður Ragnheiðar, er með doktorspróf í lífefnafræði og …
Anthony Ruberto, maður Ragnheiðar, er með doktorspróf í lífefnafræði og vinnur við malaríurannsóknir í Georgíu-háskóla. Anthony er kanadískur en ættaður frá Ítalíu. Ljósmynd/Aðsend

Fann prófessor sem deildi áhuganum

Ragnheiður tók síðasta árið í framhaldsskóla, eða high school, í Bandaríkjunum og sótti svo um við ýmsa háskóla. Hún hóf undirbúningsnám í læknisfræði en fann fljótlega köllun sína í klassískum fræðum og listasögu þaðan sem hún lauk fyrstu háskólagráðu.

Eftir það starfaði hún í bandaríska sendiráðinu á Íslandi í eitt ár áður en teningunum var kastað og hún innritaði sig í listasögu við Háskólann í Toronto í Kanada þaðan sem hún lauk meistaraprófi. „Eftir það kom ég heim og var í ýmsum vinnum og það var líklega þá sem ég áttaði mig á áhuga mínum á listasögunni og sótti í framhaldinu um launað doktorsnám við nokkra háskóla,“ segir Ragnheiður frá. „Yale varð eiginlega fyrir valinu af því að þar fann ég prófessor sem sýndi mínum hugmyndum áhuga þegar ég hafði samband við hana og þá hafði hún sjálf verið að pæla í svipuðum þverfaglegum hlutum og þá flutti ég til New Haven.“

Ragnheiður með föður sínum, Gunnari Pálssyni. Eplið fellur skammt frá …
Ragnheiður með föður sínum, Gunnari Pálssyni. Eplið fellur skammt frá eikinni eins og sagt er en Gunnar er sjálfur með doktorspróf í stjórnmálafræði frá háskólanum í Buffalo. Ljósmynd/Aðsend

Þegar blaðamaður spyr Ragnheiði hvaða þýðingu Blanshard-verðlaunin hafi fyrir hana svarar hún því til að verðlaunin séu mikil viðurkenning á því sem hún setti fram í ritgerð sinni. „Í stóra samhenginu vil ég meina að saga grískra fornmuna sé og hafi alltaf verið allt of háð rituðum heimildum frá fornöld, til dæmis verkum Hómers og eins verkum sem voru skrifuð á bæði latínu og grísku við útbreiðslu kristininnar. Það er fræðilega samhengið hjá mér,“ segir Ragnheiður.

Bók í smíðum

Telur hún ákvörðun verðlaunanefndarinnar sprottna af þessari greiningu hennar á efnislegum þætti sem talinn sé undirstaða vestrænnar menningar. „Svo eru örugglega einhverjir úti í heimi sem myndu kalla þetta slettirekuskap, að einhver Íslendingur sé að endurskrifa einhvern kafla í svona rótgróinni sögu, svo verðlaunin eru ákveðin viðurkenning á því að hægt sé að gera meira í þessari sögu og að ég hafi eitthvað til málanna að leggja. Eins bara að fólki í fræðasamfélaginu þyki þetta eitthvað nýtt og spennandi,“ segir Ragnheiður.

Hún ætlar sér að dvelja um tíma á Íslandi núna og hvíla heilasellurnar um sinn. „Ég mun byrja fljótlega að leggja drög að alla vega einni bók og kannski nokkrum fræðigreinum upp úr ritgerðinni mini. En ég er líka spennt að sjá hvar maðurinn minn endar, hann er doktor í líffræði,“ segir Ragnheiður en maður hennar, líffræðingurinn, er Anthony Ruberto.

„Anthony bjó í Kambódíu í hálft ár og við skelltum …
„Anthony bjó í Kambódíu í hálft ár og við skelltum okkur á leirlistarnámskeið sem heyrnalausir heimamamenn í Siem Reap kenndu. Ég lærði meira af þessari upplifun en nokkurri bók.“ Ljósmynd/Aðsend

Sjálf er Ragnheiður dóttir Gunnars Pálssonar, starfsmanns utanríkisþjónustunnar til áratuga, og Elínar Snorradóttur.

„Pabbi var sendur til Indlands, til Nýju-Delí, þegar ég var búin með níunda bekk í Hagaskóla og þá fluttum við fjölskyldan þangað og vorum þar í tæp tvö ár. Þar fékk ég fyrst áhuga á arfleifð listsköpunar og ýmissa trúarbragða, það er bara eitthvað við það að ferðast og sjá hvað fólk var að skapa við hof og inni í hofum en svo gerði ég ekkert með þetta fyrr en ég fór að læra þetta síðar – þarna spratt áhuginn hins vegar fyrst upp,“ segir Ragnheiður frá.

„Ein nánasta vinkona mín, Noor Brara, gifti sig á Indlandi …
„Ein nánasta vinkona mín, Noor Brara, gifti sig á Indlandi á síðasta ári. Við kynntumst 2007 þegar ég fluttist með fjölskyldunni til Nýju Delí,“ segir dr. Ragnheiður frá. Ljósmynd/Aðsend

Lokaspurning, hvað með framtíðaráætlanir?

„Mig langar að halda áfram rannsóknum en ég var líka mikið að kenna samhliða náminu í Yale og ég gæti vel hugsað mér blöndu af rannsóknarvinnu og kennslu. Ætli ég verði ekki prófessor einhvern daginn,“ segir Ragnheiður Soffía Gunnarsdóttir að lokum, doktor í listasögu frá Yale og handhafi hinna eftirsóttu Blanshard-verðlauna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka