Við Hafnarstræti 3 á Akureyri stendur afar sjarmerandi blátt timburhús sem vekur eftirtekt gesta og gangandi. Húsið, sem var flutt inn í einingum frá Noregi, á sér 120 ára sögu en í því hafa búið margar fjölskyldur, en auk þess var það í hlutverki símstöðvar Akureyrar um tíma. Í dag býr þar Kristín Vala Breiðfjörð með eiginmanninum Braga Matthíassyni og dætrunum Heklu og Kötlu, en þau standa í ströngu þessa dagana við að koma húsinu í upprunalegt horf. Fjölskyldan býr aðallega á efri hæðinni þar sem neðri hæðin er enn að mestu ókláruð, en þrjú ár eru enn í að húsið verði fullklárað.
Blaðamaður átti leið um Akureyri í hitabylgju í maí og bankaði upp á. Kristín tók gestinum vel og leiddi hann í allan sannleikann um húsið með góða andann. Ljóst er að í yfir heila öld hefur þar verið líf og fjör, sorgir og sigrar. Bara ef veggirnir gætu talað!
„Við vorum búin að vera að skima eftir húsi en mig hafði alltaf langað til að búa í innbænum þó Bragi hafi ekki verið eins spenntur, enda er hann pínu draugahræddur og draugar fylgja jú oft gömlum húsum“, segir Kristín.
Bragi rekur nefið inn og heyrir síðustu athugasemdina.
„Það var nú kannski ekki ástæðan!“ segir hann og hlær.
„En hvað um það, við vorum búin að skoða tvö önnur hús í hverfinu þegar systir mín sagði að vinkona sín væri að fara að selja þetta hús. Systir mín var þá að kaupa stóla af henni og sendi mig til að ná í þá þannig að ég gæti skoðað húsið í leiðinni. Svo komum við og vorum að vonum forvitin um þetta flotta hús, en þegar við löbbuðum inn og sáum neðri hæðina sá ég að Bragi fékk smá sjokk því það eina sem var á þeirri hæð voru útveggirnir og grænt spónagólf. Það var búið að gera ýmislegt en rosalega mikið eftir,“ segir hún og segir efri hæðina hafa verið íbúðarhæfa.
„Mér fannst þetta stór biti en við ákváðum að skoða húsið með húsasmíðameistara. Eftir að hafa skoðað allt húsið sagði hann: „Þið kaupið þetta og ég skal koma að vinna fyrir ykkur og þú bakar fyrir mig snúða á hverjum degi,“ segir hún og brosir.
„Þannig að við keyptum húsið árið 2021 og hófumst handa,“ segir Kristín og segir þau hafa þurft að byrja á nýjum pípulögnum, nýju rafmagni og eins þurfti að styrkja grindina með því að setja nýtt burðarvirki.
Við göngum um neðri hæðina sem er tilbúin undir tréverk að hluta til, en tilbúið er gestaherbergi, skrifstofa og bað sem er innréttað á gamaldagsmáta, í anda hússins. Kötturinn Nói Síríus spígsporar á baðkarinu og mjálmar hátt.
„Hann er litli súkkulaðimolinn okkar og mikill mömmustrákur.“
Kristín leiðir blaðamann um rykuga hæðina þar sem stássstofan kemur til með að vera einn daginn. Hún bendir á gullfallega glugga og gamaldags ofna sem eiga eftir að vera mikil stofuprýði.
„Gluggarnir eru glænýir en verða nákvæmlega eins og þeir upprunalegu voru, með þessum litum,“ segir hún.
Við göngum upp á efri hæðina þar sem allt var tilbúið þegar fjölskyldan flutti inn. Þar má nú finna tímabundið eldhús, stofu og þrjú svefnherbergi.
Á leiðinni upp stigann rekur blaðamaður augun í fallegt landslagsmálverk sem er málað beint á vegginn.
„Þarna var veggfóðruð krossviðarplata sem fyrri eigendur tóku niður og þá blasti þetta málverk við, en þetta er Svarfaðardalur. Allir Dalvíkingar sem koma í heimsókn taka andköf þegar þeir sjá málverkið, en talið er að það sé málað um 1950.“
Húsið var byggt af Klemens Jónssyni sýslumanni.
„Hann bjó ekki hér lengi því hann fór suður á þing. Svo bjó hér um tíma ritstjóri en seinna var hér fyrsta símstöðin á Akureyri og ég held að hér hafi verið fyrsti tannlæknirinn, en ég vil minna vita af því,“ segir hún og hlær.
En eru einhverjir draugar hérna?
„Nei, það er rosalega góður andi hérna og engir draugar, en rafvirkinn okkar hefur staðfest það. Ekki með vísindalegum aðferðum, en hann er mjög næmur eins og margir Dalvíkingar. Ef það eru einhverjir draugar, eru það þá bara velviljaðir fyrri eigendur. Ég hef töluverða tengingu við fyrri íbúa því það er svo margt sem hefur fundist hér á milli þilja og undir gólfi,“ segir Kristín og leiðir blaðamann að gömlum sýningarkassa sem hún notar undir góssið sem fundist hefur í húsinu.
„Hér hafa fundist gamlar minjar sem ég hef fengið að eiga,“ segir Kristín og sýnir blaðamanni gersemar hússins.
Í kassanum má finna gömul símskeyti, samtalsbeiðnir, gamlan barnaskó, lykil, hníf, dómínókubb, smápeninga og póstkort til stöðvarstjórans skrifað jólin 1916 og annað skrifað árið 1917, svo eitthvað sé nefnt.
Það verður gaman að heimsækja Kristínu aftur eftir nokkur ár þegar allt húsið verður fullkomlega tilbúið, en enn eru nokkur handtök eftir.
„Við gerum þetta allt í samstarfi við Húsafriðunarsjóð hjá Minjastofnun og fáum styrk frá þeim. Við gætum þetta ekki án þeirra en ekki bara fáum við styrk heldur líka ráðgjöf. Útkoman verður vel þess virði.“
Ítarlegt viðtal er við Kristínu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.