Ekki eru allir á sama máli um sölu og flutning á flugvélinni, sem flutt var á föstudag rúmlega 700 kílómetra leið frá Langanesi til Eyvindarholts undir Eyjafjöllum.
Flak vélarinnar, sem er af gerðinni Douglas R4D-S og er frá tímum bandaríska setuliðsins á Heiðarfjalli, hefur legið á Sauðanesflugvelli á Langanesi frá því hún brotlenti þar árið 1969.
Skiptar skoðanir eru uppi um hvort að flugvélin hafi verið bóndans að selja, sér í lagi vegna þess að jörðin sem vélin lá á er ríkisjörð. Sveitarfélagið hafði þó áður haft í hyggju að kaupa flugvélina af bóndanum, samkvæmt Birni Sigurði Lárussyni, sveitarstjóra Langanesbyggðar.
„Forsaga málsins er sú að Ágúst hafði heitið forvera mínum að vélin yrði ekki seld, nema að sveitarstjórnin fengi vitneskju um fyrirhugaða sölu og tækifæri til að gera tilboð í vélina.
Ágúst stóð við það loforð sitt. Hann hringdi í mig og tjáði mér að hann hefði fengið tilboð í vélina og hygðist selja hana. Hann bauð okkur að jafna tilboðið og kaupa vélina, sem var samþykkt af meirihluta sveitastjórnar á sveitaráðsfundi, og í kjölfarið var undirritaður kaupsamningur við Ágúst.“
Stuttu eftir undirritun samningsins leitaði Ágúst til Björns og tjáði honum að hann hygðist rifta umræddum kaupsamningi.
„Ágúst trúði mér fyrir því að honum hafði borist nýtt tilboð í vélina, en í þetta skiptið vildi hann ekki taka jöfnunartilboði bæjarstjórnar. Ágúst tjáði mér að honum hafi snerist hugur vegna þess að ákveðnir íbúar svæðisins hafi vegið illa að mannorði hans vegna málsins, því hafi Ágúst ekki einungis viljað losna við vélina af eigin landi, heldur svæðinu öllu í heild sinni.
Ágúst sagði mér að það væri fólk í bænum sem héldi því fram að hann ætti ekki vélina og hefði einungis illt í hyggju með sölunni. Salan væri einungis tilraun til að féfletta bæinn með því að selja ónýtt flak sem væri einskis virði. Í kjölfar þessara frétta heyrði ég í oddvita bæjarstjórnar, sem taldi best í stöðunni að virða vilja Ágústar, og gera ekki meira úr máli sem nú þegar væri orðið erfitt,“ segir Björn í samtali við mbl.is.
Tómas Birgir Magnússon, nýr eigandi vélarinnar, segir í samtali við mbl.is, núverandi staðsetningu hennar mjög hentuga, sér í lagi vegna nálægðrar við höfuðborgarsvæðið og aðra fjölsótta ferðamannastaði í grennd við bæ sinn.
„Ég tek undir orð Ágústs á Sauðanesi um að saga flugvélarinnar haldi áfram þó svo að vélin liggi ekki lengur á landi hans. Bændur, sem vilja helst einbeita sér að eigin búskap, hafa ekki áhuga á að sinna vaxandi heimsóknum ferðamanna á jörð sína og verða fyrir tilheyrandi ónæði sem því fylgir.
Sjálfur er ég í ferðaþjónustu og mér þykir vélin og saga hennar einstaklega spennandi. Hugmyndin um að eignast vélina varð til yfir kaffibolla með félaga mínum en hann hafði heyrt að hún væri til sölu,“ segir Tómas.
Segist Tómas hafa séð tækifæri í að flytja vélina til sín þegar Ágúst vildi losna við hana. Hún nyti sín betur vegna greiðari aðgangs gesta. Það tekur núna um eina og hálfa klukkustund að keyra að vélinni frá höfuðborgarsvæðinu en hún er einnig í nánd við aðra fjölsótta staði hér á svæðinu.
„Saga flugvélarinnar tengist mjög áhugaverðu tímabili í sögu landsins. Ég kann mjög að meta hana og sé auðvitað fyrir mér að varðveita hana og þau tækifæri sem fylgja henni með sem bestum hætti.“