„Fólk veit ekki endilega hvert á að leita“

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Eggert Jóhannesson

„Í mjög mörgum tilfellum getum við klárað að aðstoða fólk og það fær lausn sinna mála í gegnum símtal, en ef við náum ekki að klára það þá getum við vísað því áfram í kerfinu,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is.

Heilsugæslan hefur nú stóraukið þjónustu og ráðgjöf um heilsutengd málefni í símanúmerinu 1700 og á netspjalli Heilsuveru. Hjúkrunarfræðingar og annað sérþjálfað starfsfólk upplýsingamiðstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Læknavaktarinnar mun svara símtölum frá almenningi allan sólarhringinn, leysa úr erindum og benda á hvar viðkomandi getur sótt sér þjónustu ef þörf er á.

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að reynsla af þessari þjónustu sýni að hægt sé að leysa úr sífellt stærri hluta erinda með fjarlausnum. Það sé betri þjónusta fyrir einstaklinginn og dragi jafnframt úr álagi á heilbrigðiskerfið.

Fólk viti ekki alltaf hvert eigi að leita

„Við höfum fundið fyrir því að fólk veit ekki endilega hvert á að leita með svona erindi og er kannski að rata á vitlausa staði. Það kemur kannski með of flókin erindi á heilsugæsluna og þá jafnvel of léttvæg erindi á bráðamóttöku. Þannig við erum svona að hjálpa fólki að leita á rétta staði,“ segir Ragnheiður Ósk.

Ragnheiður segir að heilsugæslan hafi aukið fjölda starfsmanna sem eru á vakt. Það séu nú 4 til 6 hjúkrunarfræðingar á vakt um daginn og um 4 til 5 hjúkrunarfræðingar á kvöldin.

Hún segir að málin sem þau ná að leysa í gegnum síma séu „allt á milli himins og jarðar“. Það geti verið hvers kyns verkir, flensulík einkenni, pestaeinkenni, uppköst og niðurgangur svo fátt sé nefnt.

Misræmi í einkennalýsingum ekki vandamál

Þá segir hún að það sé lítil hætta á því að greiningar verði ónákvæmar þar sem ef einhver vafi liggi á um einkenni fólks sé þeim vísað áfram ef ekki reynist hægt að aðstoða í gegnum síma.

Fólk geti hins vegar lýst einkennum sínum með mismunandi hætti en aðspurð segir Ragnheiður þó að það sé yfirleitt ekki vandamál.

„Það getur verið [vandamál] en yfirleitt er það nú ekki,“ segir Ragnheiður. „Við erum með ákveðið verklag hjá okkur– ákveðnar spurningar sem leiðir fólk áfram til þess að greina betur og svo við áttum okkur betur á einkennum.“

Ákveðið tilraunaverkefni

Ragnheiður Ósk segir að þetta sé sú leið sem víða er farin í heilbrigðisþjónustu í öðrum löndum, Ísland sé því ekki eitt á báti í þessum málefnum. Hún segir að stefnan sé að auka fjarheilbrigðisþjónustu, sem verði í mun meira mæli í framtíðinni.

„Við þurfum aðeins að prófa og athuga hvernig þetta gengur og taka út gögn og tölur og skoða einmitt líka hvað við náum að aðstoða fólk mikið án þess að það þurfi að leita eitthvað meira og skoða þær tölur og líka hvað við þurfum að senda mikið áfram.“

„Þetta er svona ákveðið tilraunaverkefni nú í sumar og það verður spennandi að sjá hvernig til tekst,“ segir Ragnheiður. „Ef þetta gengur vel þá munum við halda áfram með þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka