„Fyrsta humarhátíðin mín en ekki sú síðasta“

Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Hornafjarðar, bauð Hornfirðingum heim til sín í …
Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Hornafjarðar, bauð Hornfirðingum heim til sín í humarsúpuboð en þetta var fyrsta sinn sem hann fagnaði humarhátíðinni. Samsett mynd

„Þetta er fyrsta humarhátíðin mín en ekki sú síðasta,“ segir Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Hornafjarðar um Humarhátíðina sem haldin var á Höfn nú um helgina. Var hann fenginn sem bæjarstjóri fyrir um ári síðan og kveðst vera mjög ánægður með sína fyrstu upplifun af þessari stórmerku hátíð.

Hann segir hins vegar að veðrið hafi ekki leikið vel við Hornfirðingana en þrátt fyrir það hafi þátttaka í öllum viðburðum verið frábær.

„Það var nú rigning alla helgina en við létum það ekkert á okkur fá og þátttakan var alveg ólíkindum góð“

Söngatriði Diljár sló í gegn á hátíðinni.
Söngatriði Diljár sló í gegn á hátíðinni. Ljósmynd/Aðsend

Glæsileg dagskrá

Sigurjón segir að hátíðin hafi tekist með afbrigðum vel. „Það var geysilega fjölbreytt dagskrá og allir gátu fengið eitthvað við sitt hæfi,“ segir hann. Þetta hafi verið 30 ára afmælishátíð og því hafi dagskráin verið sérstaklega flott.

Hátíðin hófst með brekkusöng á hóteltúninu á fimmtudaginn. Á föstudaginn var síðan viðburður í Nýheimum þar sem rætt var um humar og sögu humarveiða og þar voru einnig fyrstu drög að rannsóknum á Humarstofninum sem Sigurjón segir lofa góðu.

Einnig var haldið golfmót og hlaup í kringum Vestrahorn og auðvitað var ekki hægt að halda Humarhátíðina án þess að spila Hornarfjarðarmanna, einkennisspil hátíðarinnar.

„Ég hrósa bara humarhátíðarnefndinni fyrir glæsilega dagskrá.“

Humarhátíðarnefndin stóð sig með glæsibrag.
Humarhátíðarnefndin stóð sig með glæsibrag. Ljósmynd/Aðsend

Humarsúpa í heimahúsi

„Síðan var humarsúpa í boði um allan bæ. Ég bauð meðal annars hingað heim í humarsúpu,“ segir Sigurjón. Hann segir að það hafi verið sá viðburður sem stóð hvað mest upp úr hjá honum. Hann segir að það hafi verið troðfullt hús og að súpan hafi klárast, sem honum þykir gott.

„Það voru geysilega margir gestir. Það var troðfullt hús í 2-3 klukkutíma,“ segir hann. „Það var haldið síðan þaðan út á hóteltún og farið í skrúðgöngu.“

Sigurjón kveðst hæst ánægður með hvernig hátíðin heppnaðist. Bærinn allur hafi verið geysimikið skreyttur og veitt voru verðlaun fyrir best skreytta húsið.

„Það var frábær andi í Hornfirðingunum enda gengur vel hjá okkur og það er bjart framundan,“ segir Sigurjón að lokum.

Sigurjón hrærir í humarsúpunni.
Sigurjón hrærir í humarsúpunni. Ljósmynd/Aðsend
Frá hátíðarsvæðinu
Frá hátíðarsvæðinu Ljósmynd/Aðsend
Jóhann Morvek, skólastjóri tónlistarskólans, blés hátíðaranda í Hornfirðinga.
Jóhann Morvek, skólastjóri tónlistarskólans, blés hátíðaranda í Hornfirðinga. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka