Hlaut verðlaun fyrir lokaverkefni í innanhússarkitektúr á Spáni

Hafdís Katrín Hlynsdóttir átti besta lokaverkefnið í ár en það …
Hafdís Katrín Hlynsdóttir átti besta lokaverkefnið í ár en það fjallaði um að brúa bil á milli kynslóða. Ljósmynd/Aðsend

„Það er mikill heiður fyrir mig að hafa fengið þessi verðlaun en þau eru í raun bara viðurkenning á öllu því sem ég lagði á mig. Auk þess er þetta flott fyrir ferilskrána og gerir mig mjög stolta,“ segir Hafdís Katrín Hlynsdóttir sem nýlega útskrifaðist úr IED skólanum í Barcelona þar sem hún hlaut verðlaun fyrir lokaverkefni sitt í innanhússarkitektúr. 

Þegar blaðamaður mbl.is náði tali af henni var hún nýkomin heim úr bæjarferð í góða veðrinu ytra en með í för voru nokkrir fjölskyldumeðlimir sem voru staddir í heimsókn hjá henni til að fagna útskriftinni.

Kolféll fyrir Spáni

Hafdís Katrín er Garðbæingur í húð og hár en fluttist til Barcelona fyrir fjórum árum þegar hún komst inn í námið sem hana hafði dreymt um að stunda. Þá segist hún hafa fallið fyrir Spáni þegar hún var yngri og fór utan í sumarbúðir. Eftir dvölina þar var hún staðráðin í að flytja út þegar hún yrði eldri.

„Ég heillaðist bara algjörlega af spænskri menningu þegar ég var yngri og sá fyrir mér að búa hérna í framtíðinni. Svo fann ég námið sem hentaði mér, ákvað að sækja um og komst inn. Þá tók ég bara skrefið og flutti út.“

Námið að verða sívinsælla

Hafdís Katrín þreytti inntökupróf sem gekk meðal annars út á að kanna teiknikunnáttu hennar og almenna þekkingu á listasögu ásamt almennum áhuga á náminu. Þá voru tvær íslenskar stelpur í bekk með henni sem þykir óvenju mikið að hennar sögn.

IED skólinn þar sem Hafdís Katrín nam innanhússarkitektúr í fjögur …
IED skólinn þar sem Hafdís Katrín nam innanhússarkitektúr í fjögur ár. Ljósmynd/Aðsend

„Námið er orðið mun vinsælla í dag og nú finnst mér fleiri Íslendingar vera að koma í skólann,“ segir Hafdís Katrín og bætir því við að IED skólinn sé alþjóðlegur og bjóði ekki einungis upp á innanhússarkitektúr því farið sé meðal annars í markaðsfræði, listasögu, grafík og vöruhönnun.

Hannaði verðlaunaverkefnið

Lokaverkefni Hafdísar Katrínar, sem bar titilinn Bridging Generations, gekk út á að hanna þekkingarmiðstöð þar sem eldri kynslóðir úr sveitunum og yngri kynslóðir úr borgunum eru hvattar til að koma saman og deila þekkingu sín á milli. Þá geta þau yngri lært um landbúnað og hefðir í umhverfinu í kring og þau eldri fengið ferska sýn frá þeim yngri. Þetta er gert til að varðveita mikilvægar hefðir og menningararf í sveitunum í kring sem og að brúa kynslóðarbilið og bilið á milli borgarinnar og sveitarinnar. Miðstöðin sem Hafdís Katrín hannaði fékk nafnið Viska.

Kynning á lokaverkefninu.
Kynning á lokaverkefninu. Ljósmynd/Aðsend

„Ég valdi mér gamalt katalónskt sveitabýli, eða „Masía“ eins og það kallast, og gerði það upp til að mæta þörfum verkefnisins. Það var smá krefjandi því að Masían er með ákveðna hefðbundna hönnun sem ekki má breyta, t.d. litlir gluggar til að halda réttu hita- og birtustigi inni. Þannig að það var mjög gaman og krefjandi að finna nýjar leiðir til að hleypa dagsbirtu inn í húsið án þess að „skemma“ útlit hússins. Ég blandaði nútímalegum efnivið saman við hefðbundnara efni, t.d. stáli og ógegnsæju gleri við timbur og upprunalega steinveggi hússins.“

Í lokaverkefni sínu lagði Hafdís Katrín áherslu á að brúa …
Í lokaverkefni sínu lagði Hafdís Katrín áherslu á að brúa bilið á milli kynslóðanna og hanna miðstöð sem mætir þörfum allra. Ljósmynd/Aðsend

Þá stefnir Hafdís Katrín á að koma til Íslands í sumar og hefja störf hjá hönnunarstofunni HAF STUDIO þar sem hún var í starfsnámi síðastliðið sumar.

„Ég var hjá þeim í fyrra en þau buðu mér áframhaldandi starf. Ég er ekkert smávegis ánægð með það og spennt fyrir framhaldinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka