Lærði að brosa á Íslandi

Lionel Govathson hefur náð ótrúlegu valdi á íslensku á skömmum …
Lionel Govathson hefur náð ótrúlegu valdi á íslensku á skömmum tíma. mbl.is/Sigurður Bogi

Fyrir þremur árum síðan var Lionel Govathson staddur sem flóttamaður í Kenía þegar honum bauðst einstakt tækifæri til þess að flytja til Íslands. Lionel, sem náð hefur ótrúlegum tökum á íslensku á stuttum tíma, segir Íslendinga hafa kennt sér að brosa. 

Flúði 18 ára til Kenía

Lionel fæddist í litlum bæ í Simbabve árið 1989 þar sem hann ólst upp og gekk í skóla. Hann er einkabarn foreldra sinna og ólst upp að miklu leyti hjá afa sínum og ömmu.

Líf Lionels tók beygju þegar hann var átján ára gamall, en þá neyddist hann til þess að flýja Simbabve vegna þeirra pólitísku aðstæðna sem þá ríktu þar í landi. Eftir að hafa dvalið sem flóttamaður í bæði Suður-Afríku og Kenía um nokkurt skeið fékk Lionel fréttir sem áttu eftir að breyta lífi hans til frambúðar.

„Þegar ég dvaldi í Keníu bauðst mér að flytja til Íslands. Ég vissi ekki mikið um Ísland eða við hverju ég ætti að búast en hingað til virðist þetta hafa verið besta ákvörðun sem ég hef tekið á ævinni,“ segir Lionel sem ákvað að grípa tækifærið og flytja þvert yfir hnöttinn í leit að betra lífi.

Þurfti að læra að komast í búðina

Lionel segir fyrstu vikurnar á Íslandi hafa verið fullar af krefjandi en jafnframt jákvæðum breytingum, allt frá því að þurfa að læra að komast í matvöruverslanir og að tengjast íslensku samfélagi.

„Ég þurfti að vita hvernig ég ætti að komast um til að kaupa mat og allar helstu nauðsynjar,“ segir Lionel. „Svo þurfti ég að læra á menninguna svo ég gæti gert nauðsylegar breytingar til að vera hluti af íslensku samfélagi, en það krefst bæði hugrekkis og skuldbindingar,“ bætir hann við.

Eftir að Lionel flutti til Íslands hóf hann störf í Garðaskóla þar sem hann vinnur í dag sem skólaliði. Ásamt vinnunni hefur hann unnið ötullega að því að læra íslensku og mun hann senn ljúka námi í við Háskóla Íslands þar sem hannleggur stund á íslensku sem annað mál. Hann ber Garðaskóla vel söguna og segist hafa lært mikla íslensku þar þökk sé samstarfsfólki sínu.  

„Þar sem fólk er, eiga sér stað mikil samskipti. Í vinnunni er fólk alltaf að hjálpa mér, leiðrétta mig og hvetja mig til þess að halda áfram að læra,“ segir Lionel.

Fagnar myrkrinu og brosir framan í heiminn

Jákvæðni og þakklæti eru Lionel efst í huga þegar hann er spurður um reynslu sína af Íslandi hingað til, en hann segist til dæmis fagna íslenskri veðráttu.

„Fyrst var myrkrið erfitt, en nú er ég eins og innfæddur. Þegar það er snjór fagna ég því og þegar það er myrkur fagna ég norðurljósunum,“ segir Lionel.

Hann segir brosmildi Íslendinga einstaka og kveðst sjálfur hafa lært mikilvægi þess að brosa með því að búa á Íslandi.

„Þetta er mjög öðruvísi í Kenía og annars staðar að fólk bara brosi. Ég byrjaði að sjá svona hérna. Fólk brosir til ókunnugra og svo brosa ókunnugir bara til þín! Þetta var mjög öðruvísi fyrir mig því að í Afríku þegar einhver er að brosa þýðir það að viðkomandi þekkir þig en hér er það allt öðruvísi,“ segir Lionel glaður í bragði.

Hann segir það skipta miklu máli að brosa því það opni á samskipti við annað fólk og sýni að manni sé tekið með opnum örmum.

Að tala með hjarta og sál

Þrátt fyrir að hafa einungis búið á Íslandi í tæp þrjú ár, talar Lionel glæsilega íslensku. Hann segir það skipta gífurlegu máli að fólk sem komi erlendis frá reyni að læra íslensku, því íslenskan opni dyr að samfélagi, fólki og menningu landsins.

„Þegar þú talar tungumál fólksins sem þú býrð í kringum þá talarðu til hjarta og sálar þeirra. Þannig skapaði ég mér heimili á Íslandi, með því að reyna að tala íslensku. Það snerti hjörtu margra og gaf mér rými á meðal íbúa landsins,“ segir Lionel.

Lionel hyggst setjast að hér á landi og stefnir á nám í alþjóðasamskiptum, lögfræði eða mannfræði við fyrsta tækifæri. Hann segist dreyma um að fá að vinna við að þjónusta bæði fólkið og samfélagið sem hann býr í og horfir spenntur til framtíðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka