Hátt í 1.000 herbergi eru í leigu hérlendis um þessar mundir fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.
Herbergin eru í sjö sveitarfélögum og eru langflest þeirra í Reykjavík og Reykjanesbæ, eða um 700 samanlagt. Um 150 eru í Hafnarfirði. Fólkið gistir einnig í Grindavík, Bláskógabyggð, Kópavogi og Vestmannaeyjum.
Þetta kemur fram í svari Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna, sem sjá um að finna húsnæðið að ósk Vinnumálastofnunar, við fyrirspurn mbl.is.
Stofnunin hefur sóst eftir tveggja manna herbergjum í gistiheimilum. Þegar slíkt húsnæði hefur boðist er verðið skoðað og hagkvæmustu kostirnir teknir. Nokkuð af þessum herbergjum eru innan um annað atvinnuhúsnæði og því ekki í hefðbundnum íbúðahverfum.
Herbergin sem um ræðir, eða rýmin, eru 946 talsins í heildina og er þar átt við herbergi sem eru oftast fyrir fleiri en einn einstakling. Samanlagt komast þar fyrir 2.372 einstaklingar. Í báðum tilfellum hefur fjöldinn næstum tvöfaldast síðan stofnunin byrjaði að útvega pláss fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd haustið 2022, eins og sjá má í meðfylgjandi töflu. Fermetraverðið sem ríkið greiðir í dag fyrir herbergin nemur 3.473 krónum á fermetrann.
Ekki er um framtíðarhúsnæði að ræða heldur er herbergjunum ætlað að veita skjól í einhverjar vikur eða mánuði. Fer það eftir málsmeðferðartíma fólksins. Eftir að fólk fær formlega stöðu flóttafólks dvelur það ekki lengur í herbergjunum og verður í staðinn á forræði sveitarfélaga.
Ríkið hefur eingöngu tekið íbúðir á leigu í undantekningatilfellum, þar sem staða umsækjenda kallar á slíka umgjörð. Alls eru íbúðirnar vel innan við 10% af þeim úrræðum sem aflað hefur verið.
Spurður segir Karl Pétur Jónsson, upplýsingafulltrúi Framkvæmdasýslunnar - Ríkiseigna, að vel hafi gengið að útvega rýmið, en til þess hafi starfsfólk stofnunarinnar sýnt bæði seiglu og útsjónarsemi. Enn sem komið er sé hægt að mæta eftirspurn.
„Eins og staðan er í dag höfum við nægilegt húsnæði. Við getum hins vegar ekki, frekar en aðrir, spáð fyrir um fjölda þeirra sem hingað leita sem umsækjendur um alþjóðlega vernd á komandi mánuðum,“ segir Karl Pétur.
Spurður hvort stofnunin hafi fengið nægilega mikinn stuðning frá sveitarfélögum við að útvega rýmin svarar hann: „Sveitarfélögin hafa sýnt þrautseigju í þeirri stöðu sem kom upp í kjölfar ákvörðunar úrskurðarnefndar útlendingamála haustið 2022 og stríðsins í Úkraínu veturinn 2022. Gífurleg fjölgun umsækjenda um alþjóðlega vernd kom öllum í opna skjöldu.“
Varðandi ákvörðun úrskurðarnefndar útlendingamála haustið 2022 á hann við viðbótarvernd fólks frá Venesúela.
Samkvæmt tölfræði frá verndarsviði Útlendingastofnunar frá janúar til maí á þessu ári komu flestar umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi frá Venesúelabúum, eða 1.009 talsins. Þar á eftir komu Úkraínumenn, eða 758. Á sama tíma fékk 251 Venesúelabúi synjun um alþjóðlega vernd.