Mun alvarlegri ofbeldisbrot

Staðgengill lögreglustjóra segir lögregluna verða vara við mun alvarlegri ofbeldisbrot …
Staðgengill lögreglustjóra segir lögregluna verða vara við mun alvarlegri ofbeldisbrot en áður. Fleiri manndráp síðasta árið hreyfi ekki mikið við tölfræðinni þar en fjöldi stórra verkefna sé lögreglu vissulega erfiður ljár í þúfu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta hreyfir tölfræðilega séð kannski ekki svo mikið við mælinum þótt við höfum almennt fá manndráp á Íslandi,“ segir Margrét Kristín Pálsdóttir, settur aðstoðarlögreglustjóri og staðgengill lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is en umræðuefnið er fjölgun manndrápsmála á landinu undanfarið sem mbl.is hefur nýlega farið yfir – átta manns hafa látið lífið með saknæmum hætti frá júníbyrjun í fyrra, að meðtöldu máli nú um helgina.

„Engu að síður tökum við eftir mikilli eðlisbreytingu á ástandinu og þá er ég líka að tala um þessi mál sem enda ekki með mannsláti en eru engu að síður mjög alvarleg ofbeldisbrot,“ heldur Margrét áfram og segir lögreglu nú sjá mun alvarlegri ofbeldisbrot en áður, „vopnaburður hefur aukist og eins eru vopnuð útköll lögreglunnar orðin mun fleiri. Þetta hefur auðvitað mikil áhrif á okkar störf og við tökum eftir þessari eðlisbreytingu auðvitað,“ segir aðstoðarlögreglustjórinn.

Fjöldi þungra mála

Hún segir löggæsluna skipulagða út frá því þjónustu- og öryggisstigi sem stjórn lögreglunnar kjósi að viðhafa. „Það er ekki eins og það sé verið að setja allt á hliðina en það er hins vegar þannig að þegar svona mörg þung mál hafa komið upp á stuttum tíma hefur það vissulega áhrif á starfsemina og nú er mikið álag á okkar fólki,“ segir Margrét með þunga.

Margrét Kristín Pálsdóttir kveður almenning ekki þurfa að bera kvíðboga …
Margrét Kristín Pálsdóttir kveður almenning ekki þurfa að bera kvíðboga fyrir því að styrkur löggæslu hafi dalað þrátt fyrir fjölda krefjandi verkefna undanfarið. Ljósmynd/Aðsend

Nú líður að sumarfríum, hvernig bregst lögreglan við, þarf að hnika til sumarfríum starfsfólks?

„Það hefur ekki komið til þess að við höfum þurft að synja fólki um að fara í sumarleyfi en nú hefur lögreglan verið í mjög stórum verkefnum, líttu bara á leiðtogafundinn í Hörpu og svo núna er Norðurlandafundur ráðherra [í Vestmannaeyjum] og þar er kanadíski forsætisráðherrann líka. Álagspunktarnir liggja víða hjá löggæslunni,“ svarar Margrét.

Af eljusemi og fagmennsku

Segir hún þessa miklu öryggisgæslu vissulega hafa leitt til þess að fjölga þyrfti mannskap á vettvangi. „En það er ekki eins og við ráðum ekki við þessi verkefni og fólk þarf alls ekki að óttast að minni styrkur sé í löggæslunni en staðan undanfarið hefur vissulega verið okkur áskorun,“ játar aðstoðarlögreglustjórinn.

Kveður hún lögreglu vitanlega uggandi yfir þróuninni hvað manndráps- og önnur ofbeldisbrot snerti. „En hjá okkur starfar fagfólk sem tekst á við þessi verkefni af mikilli eljusemi og fagmennsku og með það erum við mjög ánægð,“ segir Margrét Kristín Pálsdóttir að lokum, settur aðstoðarlögreglustjóri og staðgengill lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka