„Okkur var mjög vel til vina“

Petteri Orpo, nýr forsætisráðherra Finnlands, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, …
Petteri Orpo, nýr forsætisráðherra Finnlands, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, í ráðherrabústaðnum fyrr í dag. AFP/Halldór Kolbeins

„Það var einstaklega gaman að fá að taka á móti nýjum forsætisráðherra Finnlands bara nokkrum dögum eftir að hann tók við embætti. Það hafa verið rosalega góð samskipti á milli þessara tveggja ríkja og mér finnst mikilvægt að við höldum áfram að auka þau og dýpka,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsæisráðherra í samtali við mbl.is. 

Katrín átti tvíhliða fund með Petteri Orpo í ráðherrabústaðnum í dag áður en þau héldu ásamt hinum forsætisráðherrum Norðurlandanna til sumarfundar norrænu ráðherranefndarinnar í Vestmannaeyjum. 

Forsætisráðherra segir að þó samskipti landanna tveggja séu mikil megi alltaf bæta í, til dæmis á sviði rannsókna.

„Finnar hafa lagt áherslu á réttindi frumbyggja á Norðurslóðum innan mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, sem er mjög í okkar anda,“ segir Katrín sem hlakkar til samstarfsins við Orpo. 

Langlífasti norræni forsætisráðherrann

Spurð hvort hún muni sakna þess að eiga samskipti við Sönnu Marin, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, sagði Katrín:

„Okkur var mjög vel til vina en það er nú þannig að ég er orðin langlífasti forsætisráðherrann á norrænum vettvangi þannig ég er búin að kynnast þeim nokkrum. Nú er það líklega Mette [Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur] sem hefur verið næstlengst. Maður kynnist bara nýju fólki og það er gaman að kynnast þeim. Maður fagnar nýjum og kveður gamla með eftirsjá,“ segir Katrín. 

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, féllust í …
Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, féllust í faðma í heimsókn Marin til Íslands á síðasta ári. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka