Slasaður góðborgari og brotnar rúður

Lögregla að störfum í Reykjavík.
Lögregla að störfum í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Heiðvirður borgari, sem tók að sér að reyna að stöðva þjóf sem ætlaði sér að stela vínflösku af veitingastað í miðborginni í nótt, slasaðist í átökum við þjófinn. Hyggst borgarinn kæra ætlaðan þjóf fyrir líkamsárás.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu vegna verkefna hennar frá síðdegi í gær og fram til morguns í dag.

Ölvaður reyndi að sparka í og bíta lögreglumenn

Hópur manna veittist að öðrum manni. Sá var mjög ölvaður og með lítilvæga áverka. Honum var ekið á bráðamóttöku.

Ungmenni komu sér undan áður en lögregla hafði hendur í hári þeirra við skóla í miðborginni en búið var að brjóta rúðu í skólanum. Þá var rúða brotin í bifreið en verksummerki sögðu til um að glerflösku hafi verið kastað í rúðuna.

Þrír voru vistaðir í fangaklefa handteknir grunaðir um líkamsárás í þremur óskildum málum.

Töluvert var um ölvun. Ölvaður og æstur maðu ónáðaði fólk í miðbænum og brást illa við afskiptum lögreglu. Reyndi hann að sparka í og bíta lögreglumenn. Var hann vistaður í fangaklefa sökum ástands síns.

Ölvaður maður var handtekinn í heimahúsi grunaður um skemmdarverk og vistaður í fangaklefa sökum ölvunarástands.

Stútar við stýri

Þrír voru handteknir vegna gruns um ölvunarakstur. Í einu málanna skullu tvær bifreiðar saman og þar reyndist ökumaður annarrar þeirra vera töluvert ölvaður. Ekki er vitað um meiðsli á fólki. Í öðru málanna er ökumaður einnig grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Sá var þegar sviptur ökuréttindum vegna samskonar brots.

Þá reyndi ökumaður að komast undan lögreglu á hlaupum en hafði hann ekki erindi sem erifði. Var hann handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka