Eigendur og áhugafólk um rússajeppana á Íslandi ákváðu að hittast um helgina, fara yfir málin, spjalla og segja sögur.
Við Faxa í Tungufljóti í Biskupsstungum kom fólkið saman hvaðanæva af landinu. Sigurgeir Guðmundsson, fyrrverandi skólastjóri á Hellu og fyrrverandi formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar er í forsvari fyrir hópinn.
Aðspurður segir hann að viðburðurinn hafi komið til með þeim hætti að félagsskapurinn hafi haldið úti Facebooksíðu um áhugamálið sem telur um 5.600 meðlimi og fólkið hafi viljað hittast.
Segir hann um 30-40 manns hafa dvalið með hópnum í tjaldbúðum um helgina en sennilega um 50-60 manns rennt í gegn á einhverjum tímapunkti, jafnvel upp undir 100 manns.
Sigurgeir segir að elsti bíllinn sé líklega í hans eigu og sé frá árinu 1957.
„Þessir bílar komu fyrst til landsins ári fyrr. Þeir voru fluttir inn af íslenska ríkinu í vöruskiptum, sennilega fyrir síld. Bændur notuðu þá mikið. Þetta eru í raun þrjár tegundir af bílum GAZ-69 sem er gamli Rússajeppinn, UAZ-452 sem er frambyggði bíllinn og svo er annar jeppi sem er UAZ-469 sem við kölluðum í gamla daga nýja Rússajeppann. Ég held að hann sé nú framleiddur í dag en gamli jeppinn var tekinn úr framleiðslu 1973 held ég.“
Varla komu allir á rússajeppum?
„Nei nei, um var að ræða menn sem eiga svona bíla, hafa átt svona bíla eða hefur áhuga á að halda nafni þeirra og minningu á lofti.“
Sigurgeir segir sjö bíla hafa verið á svæðinu þegar mest lét. Þarna var sögufrægur bíll sem heitir Ivan Kassavisky.
„Hann er algjört listaverk, það var lagt svo mikið í hann. Hann er meiri mubla og lúxusgræja. Þetta eru breyttir bílar. Það eru amerískar vélar í þessu og ýmsir íhlutir.“
Segir hann að ekki hafi verið skipulögð dagskrá að öðru leyti en að það stóð til að fara á bílasýningu Fornbílaklúbbsins á Selfossi.
„Hún var felld niður vegna veðurs. Hér hefur verið dúndrandi fínt veður um helgina. Það getur vel verið að þetta verði gert aftur og þá verður kannski haldið aðeins öðruvísi á hlutunum.“