Ákærður fyrir tilraun til manndráps á Dubliner

Maðurinn hleypti af haglabyssunni inni á skemmistaðnum Dubliner í miðbæ …
Maðurinn hleypti af haglabyssunni inni á skemmistaðnum Dubliner í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tæplega þrítugur karlmaður hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir tilraun til manndráps á skemmtistaðnum Dubliner í mars með því að hafa farið þangað inn grímuklæddur og vopnaður hlaðinni afsagaðri haglabyssu og beint henni að þremur viðskiptavinum og barþjóni áður en hann hleypti af einu skoti rétt hjá fólkinu.

Í ákæru málsins kemur fram að maðurinn hafi beint hlaðinni byssunni að fólkinu þar sem það var við barborð staðarins og svo án viðvörunar og fyrirvaralaust hleypt af einu skoti þannig að höglin höfnuðu í innréttingu staðarins og í áfengisflöskum rétt ofan og til hliðar við fólkið. Splundruðust flöskur og rigndi glerbrotum yfir fólkið sem sat við barborðið að því er fram kemur í ákærunni.

Þá segir að maðurinn hafi falið byssuna með því að vefja hana í hvíta hettupeysu og haft hana í innkaupapoka þannig að gestir staðarins hafi ekki áttað sig á því að hann væri vopnaður þegar hann hleypti úr byssunni.

Auk þess sem saksóknari fer fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar, þá fara viðskiptavinirnir þrír og barþjónninn hvert fram á tvær milljónir í miskabætur.

Skotmaðurinn var handtekinn daginn eftir árásina og hefur hann setið í gæsluvarðhaldi síðan, en það var síðast framlengt þann 6. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert