Brot Íslandsbanka – greindi ekki hagsmunaárekstra

Íslandsbanki hefur fallist á að greiða langhæstu sekt sem lögð …
Íslandsbanki hefur fallist á að greiða langhæstu sekt sem lögð hef­ur verið á fjár­mála­fyr­ir­tæki hér á landi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsbanki gerðist brotlegur við ákvæði laga um markaði fyrir fjármálagerninga, fylgdi ekki innri reglum og verklagi við veitingu fjárfestingar- og viðbótarþjónustu til viðskiptavina. Þá fór bankinn ekki að settum skilmálum útboðs umbjóðanda síns og veitti þar að auki villandi og rangar upplýsingar til viðskiptavina sinna. Þetta er meðal þess sem komist er að í athugun fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.

Þannig braut bankinn gegn skyldum sínum samkvæmt ákvæði laganna um að starfa heiðarlega, af sanngirni og fagmennsku í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur við veitingu fjárfestingar- og viðbótarþjónustu, með trúverðugleika fjármálamarkaðarins og hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi við undirbúning og framkvæmd útboðs Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut ríkisins í bankanum sjálfum.

Vann ekki að heilindum markaðarins og hagsmunum viðskiptavina

Stjórn Íslandsbanka og Birna Einarsdóttir bankastjóri innleiddu ekki stjórnarhætti og innra eftirlit með fullnægjandi hætti þannig að komið yrði í veg fyrir hagsmunaárekstra í tengslum við verkefni bankans tengd söluferlinu. Þannig vann bankinn ekki að heilindum markaðarins og hagsmunum viðskiptavina og braut gegn ákvæðum laga um markaði fyrir fjármálagerninga.

Íslandsbanki greindi ekki hagsmunaárekstra í tengslum við verkefni bankans tengd söluferlinu og þannig skorti að framkvæma mat á því hvort ráðstafanir bankans vegna hagsmunaárekstra hafi verið fullnægjandi, hvort þörf væri á frekari ráðstöfunum vegna verkefnisins eða hvort bankinn ætti að láta ógert að taka að sér hlutverk umsjónar- og uppgjörsaðila útboðsins.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka og Finnur Árnason stjórnarformaður. Finnur var …
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka og Finnur Árnason stjórnarformaður. Finnur var kjörinn í stjórn bankans og sem stjórnarformaður á aðalfundi bankans sex dögum fyrir söluna, eða 16. mars 2022. Áður hafði Hall­grímur Snorra­son setið sem stjórnarformaður frá árinu 2016. Samsett mynd

Bankinn framkvæmdi meðal annars hvorki né skjalfesti greiningu á hagsmunaárekstrum í aðdraganda eða kjölfar kynningar hans fyrir STJ Advisors í febrúar á síðasta ári, áður en viðskiptasamband komst á milli bankans og Bankasýslu ríkisins í byrjun mars á síðasta ári, þegar bankinn gekk að skilmálum Bankasýslunnar um að taka að sér hlutverk umsjónar- og uppgjörsaðila eða áður en verksamningur við Bankasýsluna var undirritaður síðar í sama mánuði.

Önnur brot bankans

Auk brota bankans er snúa að ráðstöfunum hans vegna hagsmunaárekstra hafði hann ekki yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við starfsemi sína sem birtist í því að bankinn framkvæmdi ekki áhættumat í tengslum við aðkomu sína að söluferlinu.

Bankinn virti þá ekki skyldur sínar til skráningar og varðveisla símtala og annarra rafrænna samskipta í tengslum við verkefnið. Flokkun viðskiptavina bankans var í átta tilfellum ekki í samræmi við ákvæði laga um markaði fyrir fjármálagerninga. Íslandsbanki braut gegn ákvæðum laganna með því að veita Bankasýslunni villandi upplýsingar um fyrirliggjandi tilboð í tilboðsbókinni sem lögð var fyrir Bankasýsluna að kvöldi útboðsdags.

Rúmlega eins milljarðs króna sekt

Með hliðsjón af fjölda og alvarleika brotanna, sjónarmiða bankans í málinu, heildarveltu hans og atvikum málsins að öðru leyti var málinu lokið með sáttargreiðslu, sektar að fjárhæð einum milljarði og eitthundrað og sextíu milljónum króna til ríkissjóðs. Íslandsbanki féllst þá á að framkvæma fullnægjandi úrbætur fyrir 1. nóvember á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert