Eðlilegt að spyrja um stöðu stjórnenda bankans

Bjarni segir ljóst að Íslandsbanki hafi brugðist trausti.
Bjarni segir ljóst að Íslandsbanki hafi brugðist trausti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra segir eðlilegt að spurningar vakni um stöðu stjórnenda í Íslandsbanka eftir að skýrsla fjármálaeftirlits Seðlabankans var birt í dag. Hann segir bankann hafa augljóslega brugðist trausti og lög og reglur verið brotin við sölu á hlut ríkisins í bankanum.

Hann segir sinn þátt þegar hafa verið afgreiddan af þinginu og að eftir sem áður sé stefnt að sölu eignarhlutar ríkisins í bankanum. Þrátt fyrir brot bankans segir Bjarni að ljósi punkturinn sé sá að menn hafi ekki komist upp með að fara á svig við lögin. Ábyrgðin liggi hjá þeim sem hafi framkvæmt söluna. 

Augljóslega brugðist trausti 

„Þetta er mikill áfellisdómur yfir vinnubrögðum bankans og þess viðhorfs til áhættumats sem þar birtist. Bankinn hefur augljóslega brugðist því trausti sem honum var sýnt sem þátttakanda í þessu ferli við að framkvæma sölu á eignarhlut ríkisins. Það eru mikil vonbrigði,“ segir Bjarni. 

Menn komist ekki upp með að brjóta reglur 

Hann segir það alvarlegt mál að brot af þessu tagi séu til þess fallin að draga úr trausti á fjármálamörkuðum. Hins vegar sýni skýrslan að reglurnar séu til staðar. Kröfurnar séu skýrar og að eftirlitið sé að virka. Regluverkið sem byggt hafi verið upp geri það að verkum að menn komist ekki upp með að fara á svig við þær. 

Bjarni telur eðlilegt að spurt sé spurninga um stöðu stjórnenda …
Bjarni telur eðlilegt að spurt sé spurninga um stöðu stjórnenda bankans. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég vona að þau brot sem liggja fyrir í þessu máli sem varða fleiri en ein lög séu ekki lýsandi fyrir það sem er í gangi á íslenska fjármálamarkaðnum. Þetta eru engu að síður mjög mikil vonbrigði. Ég hef sagt frá upphafi þessa ferlis að ef einhvers staðar hafi verið farið á svig við lög og reglur þá þyrfti að taka á því með viðeigandi hætti,“ segir Bjarni. 

Er það þá þín skoðun að dómskerfið eigi að taka við keflinu?

„Við erum í fyrsta lagi að horfa upp á háa sekt sem skiptir máli en í öðru lagi erum við með það fyrirkomulag varðandi eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka að bankasýslan hefur þar hlutverki að gegna. Ég hef væntingar til þess að bankasýslan rísi undir því hlutverki sínu að ganga á eftir því með hvaða hætti Íslandsbanki ætlar að bæta ráð sitt og bregðast við í samræmi við þessa niðurstöðu.“

Setur bankasýslunni ekki fyrir

Spurður hvort hann telji Birnu Einarsdóttur bankastjóra stætt á að sitja í starfi áfram þá segir Bjarni það ekki hans hlutverk að taka slíkar ákvarðanir. „Hins vegar þykir mér eðlilegt að það vakni spurningar á borð við þær hvernig menn ætli að axla ábyrgð á því að brjóta lög. Mér finnst það vera sjálfsögð og eðlileg krafa að því sé svarað,“ segir Bjarni. 

Munt þú þá leggja hart að bankasýslunni hvað þessa hluti varðar? 

„Ég er ekki að setja bankasýslunni neitt fyrir. Ég hef bara væntingar um að bankasýslan fái skýringar á því hvernig stjórn bankans hyggst tryggja að það traust sem þarf að ríkja til bankans og almennt á fjármálamarkaði verði endurheimt.“

Þingið og ríkisendurskoðun búin að taka máli fyrir 

Fram hefur komið að fjármálaráðuneyti og ráðherra beri lagalega ábyrgð á sölu ríkiseigna. Hvernig telur þú þína stöðu vera í ljósi þess? 

„Hlutur minn í þessu máli kom til sérstakrar umfjöllunar í skýrslu ríkisendurskoðanda. Skýrslan fór til Alþingis og var afgreidd. Í meirihlutaáliti stjórnskipunar og eftirlitsnefndar er komist að þeirri niðurstöðu að lögum og reglum hafi verið fylgt við ákvarðanatöku um sölu á eignarhlut ríkisins. Minn hlutur hefur því sannarlega komið til athugunar og skoðaður af þinginu og leiddi til niðurstöðu þar,“ segir Bjarni. 

Í skýrslu fjármálaeftirlits Seðlabanka eru lög og reglur sagðar brotnar.
Í skýrslu fjármálaeftirlits Seðlabanka eru lög og reglur sagðar brotnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ábyrgðin liggi hjá bankanum 

Hann segir í sínum huga eðlilegt að bankasýslan hafi fengið bankann sem eins konar verktaka við sölu á eignarhlut ríkisins. „En við það að leysa úr sínum verkefnum fer hann á svig við almenn lög og reglur og einnig eigin reglur. Þá er ljóst að ábyrgðin er best komin hjá framkvæmdaaðilanum sjálfum,“ segir Bjarni. 

Alvarlegt að halda upplýsingum frá bankasýslunni 

Hvernig finnst þér aðkoma Bankasýslunnar í málinu? 

„Ég tek eftir því að Fjármálaeftirlitið telur að upplýsingum hafi verið haldið frá Bankasýslunni og mér finnst það alvarlegt mál. Við þurfum að hafa það í huga að það er ekki óeðlilegt að bankasýslan hafi gert samninga við Íslandsbanka um framkvæmt sölunnar. Bankinn átti að vera hæfur til þess. Það er ekki gáleysi að hún hafi gengið út frá því að bankinn myndi virða eigin reglur og viðmið og hvað þá þau lög sem gilda. Ljósi punkturinn í þessu öllu saman er sá að þegar menn fara á svig við reglurnar þá komast menn ekki upp með það eins og sektin sýnir,“ segir Bjarni. 

Hann segir þess nú að bíða hvort Bankasýslan muni taka til viðeigandi ráðstafana til þess að endurheimta traust sem óumflýjanlega glatast við þessar aðstæður. 

Áfram stefnt að sölu bankans 

Til áréttingar. Telur þú að ráðuneytið og Bankasýslan hafi verið blekkt í þessu máli?  

„Ég tel að bankinn hafi brugðist trausti sem honum var sýnt í þessu ferli,“ segir Bjarni. 

Spurður segir Bjarni að áfram sé stefnt að því að selja hlut ríkisins í bankanum þó ekki liggi fyrir hvenær réttast sé að gera það. „Við þurfum hins vegar að taka mið af öllum ábendingum sem fram hafa komið í þessu ferli þegar en næstu skref eru stigin. Við höfum áður sagt að við munum ekki framkvæma söluna með sama fyrirkomulagi.“

Ríkisstjórnin samstíga um söluna 

Pólitískir andstæðingar segja Bjarna bera ábyrgð í málinu. Þannig sagði Þor­björg Sig­ríður Gunn­laugs­dótt­ir, þingmaður Viðreisnar, m.a. að Bjarni beri ábyrgð þar sem lög hafi verið brotin skv. niðurstöðu skýrslu Fjármálaeftirlitsins. 

„Ég er löngu hættur að hafa einhverjar væntingar um eitthvað málefnalegt innlegg í þetta mál. Þar er engin sannleiksleit og eingöngu verið að reyna að slá pólitískar keilur. Það er ekkert nýtt. Hins vegar tel ég að ríkisstjórnin sé sammála um það hvernig þetta mál er vaxið og síðast þegar það var rætt á milli flokkanna þá var áhugi á því að ljúka sölunni á Íslandsbanka þegar aðstæður skapast,“ segir Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka