Íslandsbanki framkvæmdi ekki greiningu á hagsmunaárekstrum svo að hægt væri að taka ákvörðun hvort starfsmönnum hans væri heimilt að taka þátt í útboði á 22,5% hlut ríkisins í bankanum sjálfum. Þetta er meðal þess sem komist er að í athugun fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
Þannig braut bankinn gegn ákvæðum laga um markaði fyrir fjármálagerninga. Skylda bankans til að framkvæma slíka greiningu var sérstaklega rík að mati fjármálaeftirlitsins.
Þá braut bankinn gegn ákvæðum laganna með því að tryggja ekki fullnægjandi aðskilnað Fyrirtækjaráðgjafar og Verðbréfamiðlunar og tryggja ekki skilvirkni skipulags og stjórnunarfyrirkomulags bankans. Slíkt hefði gert honum kleift að grípa til allra tiltækra ráðstafana til að koma í veg fyrir að hagsmunaárekstrar hafi neikvæð áhrif á hagsmuni viðskiptavina.
Bankinn braut einnig gegn ákvæðum laganna með því að hafa ekki gert fullnægjandi ráðstafanir til að uppfæra innri reglur og stefnu um hagsmunaárekstra í samræmi við lögin. Innri reglur og stefna bankans um hagsmunaárekstra í aðdraganda og við framkvæmd útboðsins endurspegluðu ekki ákvæði laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
Auk brota bankans er snúa að ráðstöfunum hans vegna hagsmunaárekstra hafði hann ekki yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við starfsemi sína sem birtist í því að bankinn framkvæmdi ekki áhættumat í tengslum við aðkomu sína að söluferlinu.
Bankinn virti þá ekki skyldur sínar til skráningar og varðveisla símtala og annarra rafrænna samskipta í tengslum við verkefnið. Flokkun viðskiptavina bankans var í átta tilfellum ekki í samræmi við ákvæði laga um markaði fyrir fjármálagerninga. Íslandsbanki braut gegn ákvæðum laganna með því að veita Bankasýslunni villandi upplýsingar um fyrirliggjandi tilboð í tilboðsbókinni sem lögð var fyrir Bankasýsluna að kvöldi útboðsdags.
Með hliðsjón af fjölda og alvarleika brotanna, sjónarmiða bankans í málinu, heildarveltu hans og atvikum málsins að öðru leyti var málinu lokið með sáttargreiðslu, sektar að fjárhæð einum milljarði og eitthundrað og sextíu milljónum króna til ríkissjóðs. Íslandsbanki féllst þá á að framkvæma fullnægjandi úrbætur fyrir 1. nóvember á þessu ári.