Ekki tilviljun að hálendisvaktin sé hafin

Mikið var að gera hjá björgunarsveitum um helgina.
Mikið var að gera hjá björgunarsveitum um helgina. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitir höfðu í nógu að snúast um helgina en þá sérstaklega þær á Suðurlandi. Frá föstudegi til sunnudags tóku yfir eitt hundrað manns þátt í björgunaraðgerðum. Upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir enga tilviljun að hálendisvakt hafi hafist í gær.

Skráðar voru tíu aðgerðir frá föstudegi til sunnudags en á einum tímapunkti var verið að vinna í fjórum þeirra samtímis. Meðal þeirra aðgerða sem farið var í var aðstoð við örmagna ferðalanga, bílalosun, rútubjörgun og fleira.

„Rúta með nokkurn fjölda ferðamanna festi sig í Hellisá á leið inn að Lakagígum. Vel tókst til með björgun farþega, en skilja þurfti rútuna eftir í ánni. Björgunarsveit fór aftur á staðin á sunnudagskvöld til að draga rútuna úr ánni, sem tókst. Einnig var bíll dreginn upp úr Steinholtsá á leið inn á Þórsmörk,“ segir í tilkynningu frá Landsbjörg.

Sumartraffíkin byrjuð

Veðurspáin er ekki uppi á marga fiska næstu daga en Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir erfitt að segja til um hvernig framhaldið verður.

„Það er náttúrulega ómögulegt að segja en það er allaveganna ljóst að það er talsvert af fólki á ferðinni, sumartraffíkin er byrjuð. Það er ekki að ástæðulausu sem að hálendisvaktin okkar byrjaði í gær, þannig það er komin sveit inn í Landmannalaugar sem að er í raun og veru bara tiltæk þar og þá nær ef eitthvað er. Þannig að við erum alla veganna vel undirbúin en það er ómögulegt að segja hvort að á því þurfi að halda,“ segir Jón Þór í samtali við mbl.is.

Betra en að þurfa að sækja sveitir úr byggð

Hálendisvaktin sé gerð til þess að létta undir hjá sveitum Suðurlands.

„Ástæðan fyrir hálendisvaktinni er að sagan segir okkur að yfir sumartímann er það þar sem mest þarf á að halda. Sveitirnar á Suðurlandi frá kannski Hvolsvelli og austur undir Eyjafjöll, þetta eru sveitir sem mæðir svolítið mikið á þegar kemur að hálendinu. Það að setja sveit inn á hálendið, það léttir talsvert á þeim sveitum og þær geta aðeins blásið og sveitin sem er inn á hálendinu hverju sinni er þá miklu nær, þarf ekki alltaf að sækja þetta úr byggð,“ segir Jón Þór.

Átta manns eru á hálendisvakt fram á sunnudag en þá munu tvær sveitir bætast við.

„Núna eru þetta átta manns sem verða í Landmannalaugum fram á næsta sunnudag og það er raun og veru bara undir hverri sveit komið hvað hópurinn þeirra er stór en þetta er svona yfirleitt á mill sjö til tíu hverju sinni. [...] Í næstu viku bætast við Nýji dalur á Sprengisandsleið og Herðubreiðarlindir þannig að næsta sunnudag verða þrír hópar inni á hálendinu svo lengi sem að Sprengisandsleið verður opin,“ segir Jón Þór að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka