Engin ungmenni séu pínd í að starfa á leikskólum

Skólastjóri vinnuskólans segir engan píndan í að starfa á leikskóla.
Skólastjóri vinnuskólans segir engan píndan í að starfa á leikskóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Magnús Arnar Sveinbjörnsson, skólastjóri Vinnuskóla Reykjavíkur, segir að ungmenni séu ekki látin starfa á leikskólum án þess að hafa beðið um það sjálf. 

Samstöðin greindi frá því í dag að ungmenni í vinnuskólanum væru látin vinna á leikskólum án þess að fá kennslu. 

Þetta er í raun bara tilboð og þau geta hakað við það og óskað eftir öðrum störfum heldur en garðyrkju. Við í raun og veru hringjum út störfin og tölum við krakkana og bjóðum þeim sem eru framarlega á lista að fá starf á leikskóla, en það er enginn píndur í það,” segir Magnús í samtali við mbl.is. 

Það er alveg rétt að þeim stendur til boða að fá störf á leikskólum og komast í raun færri að en vilja, en þau geta farið í garðyrkju líka.” 

Enginn í garðyrkju fyrr en í júlí

Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir, fulltrúi í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, sagði við Samstöðina að allir í 10. bekk í Vesturbæ hefðu verið settir í leikskólastörf og enginn væri í garðyrkju. 

Það passar að þau fara ekki í garðyrkju fyrr en í júlí. Í júní er enginn í 10. bekk í garðyrkju, við vorum að taka inn yngri krakkana í 8. og 9. bekk þannig að garðyrkjustörfin fyrir 10. bekk eru í júlí, segir Magnús. 

Hann segir ástæðuna vera skipulagsatriði. Við erum að taka við yfir 3.000 krökkum í vinnu og þurfum að raða þessu með einhverjum hætti og þessi leið var farin núna.”

Þannig að það er ekki verið að reyna að fylla í störf á leikskólum með ungmennum í vinnuskólanum? 

Nei, þvert á móti, en leikskólarnir hafa verið mjög viljugir að fá til sín nemendur síðustu ár sem hluti af sínu kynningarstarfi.” 

Beri ekki sömu ábyrgð og annað starfsfólk

Eiga börnin að fá lágmarkslaun fyrir leikskólastörfin? 

Nú standa nemendur í Vinnuskólanum bara utan kjarasamninga, því miður, en störfin sem þau sinna á leikskóla, það má líta á þetta sem starfskynningu og þau eru ekki að bera sömu ábyrgð og annað starfsfólk. 

En varðandi launin þá hefur náttúrulega verið óánægja með það að þau voru ekki hækkuð þetta árið.” 

Spurður út í það að engin kennsla hefði verið á fyrsta degi á leikskóla segist Magnús í raun ekki geta svarað fyrir það þar sem leikskólarnir taki líklega á því með ólíkum hætti. 

Ég held að það sé alltaf einhver með þeim, þau eru ekkert skilin eftir ein í einhverjum aðstæðum. Starfsfólk á leikskólum er að fylgja þeim eftir.” 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert