„Það er nú ekki rigningin sem ég hef áhyggjur af, frekar vindurinn,“ segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni, í samtali við mbl.is. Hann segir tvær lægðir framundan á morgun og á miðvikudag og jafnvel fleiri í næstu viku.
Á morgun og miðvikudag munu tvær lægðir koma úr suðvestri. Munu landsmenn mest finna fyrir þeim á Suður- og Suðausturlandi.
„Það eru tvær djúpar lægðir að koma á morgun og miðvikudag. Þetta eru alvöru lægðir og auðvitað fylgir þeim rigning, sérstaklega á Suðaustur- og Austurlandi, en það eru líka hvassir vindar í kringum þessar lægðri,“ segir hann og bætir við: „Svo vindur þetta upp á sig og þegar frá líður verður norðanátt með þessu.“
Hann tekur fram að þessar lægðir myndu ekki teljast merkilegar ef þær kæmu yfir veturinn en þær séu ansi djúpar miðað við sumartímann. Ferðamenn og Íslendingar séu á faraldsfæti og því fylgi alltaf meiri áhætta í svona veðrum.
Hann telur ekki ólíklegt að fleiri lægðir séu í kortunum en erfitt sé að spá fyrir um það hversu lengi þær muni vara.
„Það eru jafnvel fleiri lægðir framundan í næstu viku, en myndin er svolítið að skýrast og er erfitt að segja til um hversu lengi þetta muni vara."
Hvað er að valda þessum lægðum?
„Það eru talsverðar hitaandstæður yfir Norður-Atlantshafi. Það er svalt loft að leka yfir okkur frá vestanverðu Grænlandi, en mikill hiti er búinn að vera koma frá Norður-Ameríku og Norður-Evrópu,“ segir hann.
„Það er hlýr sjór að koma sunnan við landið en á móti kemur kaldur sjór norður af landinu þar sem hafís hefur verið að bráðna. Þessi hitastigull frá norður til suðurs ýtir að einhverju leyti undir þetta veðurlag,“ bætir Einar við.
Hann segir erfitt að spá fyrir um hvernig veðrið muni þróast í sumar og segir að veðurspár fyrir júlímánuð séu mismunandi. „Kannski er það þannig að veðurlíkön fyrir langtímaspár séu ekki ná því sem er í gangi vegna veðurafbrigða víðs vegar um jörðina þessar vikurnar.“