Hannes Steindórsson fasteignasali ætlar að segja af sér sem bæjarfulltrúi í Kópavogsbæ á bæjarstjórnarfundi á morgun.
Hann segir að í kjölfarið ætli hann að einbeita sér að því að selja fasteignir og að ala upp börnin sín.
„Það þarf að hafa báðar hendur á stýri á fasteignamarkaði í þessu ástandi,“ segir Hannes í samtali við mbl.is.
Hann segir helstu ástæðuna fyrir því að hann ætli að hætta í bæjarstjórn vera annríki við fasteignasölu.
„Vegna anna finn ég að maður getur ekki beitt sér alveg eins vel í þágu Kópavogsbúa eins og maður vill,“ segir Hannes.
Hann segir að hann hafi verið að undirbúa að taka við sem forseti bæjarstjórnar um miðjan júlí og hafi séð fyrir að það yrði enn meiri vinna.
Elísabet Sveinsdóttir flokkssystir Hannesar í Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi mun taka við sæti Hannesar í bæjarstjórn.
„Fyrst og fremst er ég gríðarlega stoltur og þakklátur Kópavogsbúum fyrir að hafa fengið tækifæri að vera í bæjarstjórn og vil ég þakka þeim það sérstaklega,“ segir Hannes.
Hann segir starfið hafa verið gríðarlega mikill skóli og bæði áhugavert og skemmtilegt. Hópurinn í bæjarstjórn sé „hreint magnaður“ þvert á flokka og vinni gott starf.
Hannes segist ekki vera hættur í pólitík þrátt fyrir að hætta í bæjarstjórn.
„Maður sér hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir Hannes.